Katrín Björgvinsdóttir leikstjóri er í viðtali við Mannlíf þar sem hún ræðir um lokamynd sína frá Danska kvikmyndaskólanum, Dronning Ingrid.
Úr viðtalinu:
Katrín Björgvinsdóttir er ungur leikstjóri á uppleið. Hún útskrifaðist úr danska kvikmyndaskólanum Den Danske Filmskole í vor og hefur fengið frábæra dóma í þarlendum fjölmiðlum fyrir lokaverkefni sitt Dronning Ingrid eða Ingrid drottning. Katrín segir viðbrögðin hafa komið skemmtilega á óvart því hún hafi, satt best að segja, ekki átt von á að saga ungrar konu í tilvistarkreppu myndi höfða til jafnbreiðs hóps áhorfenda og raun ber vitni.
„Það er frábært að fá þessi jákvæðu viðbrögð. Ég var sjálf mjög ánægð með útkomuna en reiknaði ekkert endilega með því að þetta kæmi til með að falla í kramið hjá öllum. Þetta er nefnilega einföld saga um hversdagslegar og frekar prívat tilfinningar og ég var búin að ímynda mér að viðfangsefnið myndi tala mjög skýrt til einhverra áhorfenda en að aðrir kynnu að afskrifa það sem eitthvað sem skipti engu máli.“
Lokaverkefnið, Dronning Ingrid, fjallar að sögn Katrínar um Ingrid, „stelpukonu á fertugsaldri“ eins og hún orðar það, sem er ekki alveg á þeim stað í lífinu sem hún hefði viljað vera. „Hún hefur verið einhleyp síðan hún var 17 ára, vinnur í undirfataverslun og þegar hér er komið við sögu eru foreldrar hennar að skilja. Hún byrjar að átta sig á að hún er kannski ekkert sérstök eða öðruvísi en allir hinir og langar í rauninni bara til þess að eignast kærasta og byrja fullorðinslífið. Það reynist svo hægara sagt en gert fyrir stolta og sjálfstæða „stelpu-konu“ sem neitar að gera málamiðlanir eða virka örvæntingafull og auk þess undir sífellt meiri pressu frá líffræðilega tikkinu í leginu, að finna ástina.“
Sjá nánar hér: Karlrembulegt viðhorf kveikti neistann | Mannlíf