Heiða Jóhannsdóttir fjallar um Héraðið eftir Grím Hákonarson í Menningunni á RÚV og segir hana sjónrænt sterka og ádeilukennda samfélagsgreiningu.
Heiða segir meðal annars:
Sagan sem sögð er í Héraðinu er í senn staðleysa, þ.e. allegóría um veruleika smárra byggða sviðsett í hinum ímyndaða Erpsfirði, og ádeilukennd samfélagsgreining þar sem handritshöfundurinn Grímur Hákonarson sótti að eigin sögn efnivið til deilumála í kringum hið umsvifamikla Kaupfélag Skagfirðinga og frásagna af áhrifum þess á líf og kjör bænda á svæðinu. Í myndinni er smám saman dregin upp skýr mynd af samfélagi þar sem fákeppni, pólitísk spilling og skoðanakúgun hafa hreiðrað um sig í nafni rótgróinna hugsjóna. Þegar Inga stendur ein eftir á búinu kemur kaupfélagsstjórinn Eyjólfur til hennar og býður fram aðstoð en aðeins nægilega mikla til þess að Inga geti áfram þrælað fyrir skuldunum og viðhaldið óbreyttu ástandi. Þegar Inga kemst á snoðir um að Reynir hafi orðið fyrir fjárkúgun af hendi Eyjólfs, sem hugsanlega leiddi hann til örþrifaráða, hefur hún uppreisn sína sem hreyfir við klakaböndunum í samfélaginu.
Arndís Hrönn Egilsdóttir er vel valin í það krefjandi hlutverk að bera myndina uppi. Leikstíll hennar er átakalaus og laus við þá sjálfsmeðvitund sem stundum fylgir stórleikurum í bíómyndum. Leikur hennar er lágstemmdur en hún hefur sterka nærveru sem hún notar óspart til að miðla þeim innri styrk og áhugaverðu víddum sem Inga býr yfir. Samleikurinn við Hinrik Ólafsson og vinafólk þeirra hjóna sem leikin eru af Sveini Ólafi Gunnarssyni og Eddu Björgu Eyjólfsdóttur er einnig vel heppnaður og áhugaverður. Þegar kemur að því að bregða upp mynd af lífinu í Erpsfirði er umgjörð myndarinnar raunsæisleg, og þar tekst einkar vel til. Búningahönnun, gervi og leikmynd eru vel unnin og tónlist Valgeirs Sigurðssonar miðlar vel þeirri blöndu trega, kímni og hörku sem einkennir sögheiminn, og rennur saman í eitt í persónuleika Ingu. Sigurður Sigurjónsson fer vel í hlutverki Eyjólfs, en ólíkt hinum minna þekktu leikurum, ber hann með sér ákveðna áru sem styrkir myndina. Hann bregður sér í hlutverk hins föðurlega og kumpánlega sveitamanns, á meðan það skín í hörkuna undir niðri.
Í átökum Ingu og kaupfélagsstjórans er markvisst unnið með orðræðu og sögu samvinnuhreyfingarinnar og á stundum verður þessi þáttur í myndinni full klipptur og skorinn, þar sem persónur flytja sjónarmið í málflutningi sínum, á kostnað lipurra samtala og samspils. Það sem hins vegar vegur upp á móti er skemmtileg kímni sem einkennir þá lifandi mynd sem brugðið er upp af sveitasamfélaginu, þar sem fólk er jarðbundið og ekki vant því að bregða mikið út af hversdaglegum samskiptavenjum. Sagan fer þannig aldrei út í neinn spennutrylli þó svo að Inga finni sig á ákveðnum tímapunkti knúna til þess að hlaða haglabyssuna til þess að verjast aðsúgi sem gerður að húsi hennar um nótt í kjölfar þess að gagnrýni hennar á Kaupfélagið spyrst út. Málin eru engu að síður útkljáð að hætti bænda næsta dag þegar Inga fer til granna síns og föður skemmdarvargsins og rekur framan í hann brotna blómapotta og garðstóla sem hún vill fá bætta. Það er í þessum smáatriðum sem sjarma myndarinnar er að finna, og varða þau framvinduna á máta sem gerir myndina áhugaverða og skemmtilega þrátt fyrir að frásagnarstíllinn sé lágstemmdur og hæggengur.
Uppreisn Ingu er samsett úr þeim veruleika sem hún tilheyrir og er að brjótast út úr, hún er nokkurs konar búsáhaldabylting, nema að búsáhöldin eru af stærri gerðinni, lyftarar og mjólkurbílar í stað potta og sleifa. Og krafturin í uppreisn Ingu kemur heldur ekki á óvart, hún hefur haldið uppi heilu róbótafjósi um árabil og er því ekkert lamb að leika við. Þó svo að hún hafi lent í fjötrum hins karllega og vélvædda, er Inga fulltrúi náttúrunnar og efnisins. Hún lætur kúadellu vaða á lúxusjeppa og myndin þegar hún tekur mjólkurbílinn traustataki og lætur kaupfélagsklíkuna finna til tevatnsins í höfuðstöðvum þeirra, er sterk feminísk uppreisnarmynd. Samvinna Gríms Hákonarsonar, Mart Taniels sem sér um kvikmyndatöku og klipparans Kristjáns Loðmfjörð skilar útkomu sem er sjónrænt sterk og eftirminnileg.
Samtal við sveitalífshefðina
Raunar notast Héraðið við táknsæi sem á í sterku samtali við hefð íslensku sveitalífsmyndarinnar, þar sem vangaveltur um tengslin við náttúruna og náið samband við skepnurnar mynda rauðan þráð. Hér heldur Grímur áfram með þema sem var miðlægt í verðlaunamyndinni Hrútum, síðustu leiknu mynd hans í fullri lengd, en í Héraðinu kveður við annan tón. Um er að ræða skýrt samtal við kvikmyndir upphafsárs íslenskra kvikmyndavorsins, sem lögðu ákveðinn grunn að sveitalífshefðinni, þ.e. Óðal feðranna og Land og synir frá árinu 1980 sem fjalla um þá valkosti sem nýjar kynslóðir bænda standa frammi fyrir í ákveðnu samfélagspólitísku og heimspekilegu samhengi. Í Héraðinu má jafnvel greina beina vísun í atriði í Óðali feðranna þar sem eftirmæli um látinn bónda felur í sér ræðu sem súmmerar upp gildi hans fyrir samvinnuhreyfinguna, Flokkinn og hollustu hans við kerfið.
Auk þessara tengsla er sjónum beint út fyrir þann karlmiðaða ramma sem mest hefur borið á í kvikmyndum íslenskra karlleikstjóra, en er að taka ákveðnum breytingum, líkt og Kona fer í stríð Benedikts Erlingssonar er skýrt dæmi um. Þannig er til dæmis afstaða hjónanna til sveitalífsins af ólíkum toga í Héraðinu. Reynir er skilgetið fórnarlamb þeirrar hugmyndafræði sem haldið er á lofti í sveitinni, á meðan Inga setur spurningarmerki við þann vítahring sem þau sitja föst í. Reynir bregst við með því að böðlast áfram og endingu spegla örlög hans harmleik táknmyndar íslenska bóndans, Bjarts í Sumarhúsum, en sjálfstæðistilburðir Bjarts báru ekki meiri árangur en svo að hann sáði í akur óvinarins allt sitt líf. Inga er að hluta til bundin af einarðri afstöðu eiginmannsins, eins og hún viðurkennir síðar fyrir góðvini þeirra hjóna, þá vildi hún flytja suður, til barnanna, meðan Reynir gat ekki hugsað sér að yfirgefa Dalsmynni.
Að vissu leyti segir Inga skilið fortíðina þegar hún grefur ösku eigimanns síns, en sem fulltrúi jarðarinnar og náttúrunnar í myndinni gefur hún af reynslu sinni og krafti til sveitunga sinna sem eiga í samskonar baráttu og hún. Líkt og þegar hún tekur á móti nýfæddum kálfi í upphafsatriði myndarinnar, fóstrar Inga nýtt upphaf fyrir sveitasamfélagið þó svo að endirinn gefi til kynna að hennar þroskasaga sé rétt að hefjast eftir áralanga stöðnun.
Sjá nánar hér: Kona fer í stríð við Kaupfélagið