Skjaldborgarhátíðin er hafin og standa leikar nú sem hæst á Patreksfirði. Sérlegur tíðindamaður Klapptrés, Þorkell Harðarson, hefur sent frá sér skýrslu um upphafið og birtist hún hér. Von er á annarri á morgun.
Sérlegur fréttaritari Klapptrés tafðist örlítið þegar halda átti út á flugvöll að taka kvöldvélina til Bíldudals með það markmið að enda á Patreksfirði síðar um kvöldið og vera viðstaddur Skjaldborgarhátíðina. Það var með herkjum að fréttaritarinn náði vélinni með því að taka síðustu beygjurnar á tveimur hjólum og á síðasta bensíndropanum. En það hafðist og flugfreyjan bauð upp á kaffi og súkkulaði eftir að hafa útskýrt fyrir fullri vél af heimildamyndafólki hvað það ætti til bragðs að taka ef mótorinn dytti af vélinni í háloftunum. Flugferðin tók styttri tíma en að taka strætó frá efri byggðum Kópavogs niður á Hlemm, rétt innan við hálftíma. Vel gert, Flugfélagið Ernir!
Frá Bíldudal tók við rútuferð til Patreksfjarðar þar sem töskum var hent inn á herbergi, vistum var hent í bakpoka, nýju skórnir reimaðir á bífurnar og kvöldmaturinn beið á Stúkuhúsinu. Fátækir heimildamyndagerðarmenn tóku vel til matar síns og fengu síðan sjokk þegar reikningurinn kom. Hann reif í sársaukamörk veskisins og var það mál manna að nú þyrfti að hækka styrki frá KMÍ til að koma á móts við þessi freklegu útgjöld. En það er til lítils að gráta Björn bónda, nú skyldi frekar safna liði og láta til sín taka, enda Skjaldborgarhátíðin rétt í þann mund að byrja og til lítils að gráta út á landi okur á sérfræðingum að sunnan. Til einhvers var að hlakka, því opnunarmyndin var í vændum – Vasulka áhrifin eftir Hrafnhildi Gunnarsdóttur. Bíóið var fullt af gestum – bæði heimamönnum sem mæta unnvörpum til að sjá heimildamyndir í bíó og bransaliðinu sem er duglegt að mæta. Hvort sem það er með myndir eða ekki. Enda er þetta skemmtileg hátíð þar sem góður andi ríkir. Bíóið sjálft er ekkert minna er stórkostlegt – eldgamalt út á landi bíó með yfirfylli sjarma innanborðs og glettilega þægileg sæti. Enda ekki vanþörf á, því sumir sitja þarna frá morgni til kvölds með það að markmiði að sjá hverja einustu mynd á hátíðinni.
Opnunin fór vel fram og ekki sást vín á nokkrum manni þá stundina – en það átti reyndar eftir að breytast síðar um kvöldið. Hrafnhildur Gunnarsdóttir er höfundur Vasulka áhrifanna og Margrét Jónasdóttir framleiðandi. Þær voru viðstaddar og fluttu stutta tölu um tilurð myndarinnar og hvernig gekk að fjármagna mynd um frumkvöðla í vídeó list. Myndin er mjög flott og fylgir Steinu og Woody Vasulka í gegnum áratugi af listgjörningum. Fallega tekin nútíma atriði kallast á við listræna tilraunastarfsemi Vasulka hjónanna og útkoman er skemmtileg mynd um þrotlausa frumkvöðlastarfsemi, ris og hnig listamanna sem aldrei gefast upp.
Hressir heimildamyndagerðarmenn söfnuðust saman í fiskisúpu og öldrykkju neðar í bænum eftir þetta og sátu að sumbli fram eftir nóttu þar sem draumar og brostnar vonir voru ræddar í þaula. Fréttaritarinn varð næstum úti á leiðinni heim, því hitastigið féll ansi hratt þegar miðnætursólin lækkaði á lofti. Ægifagurt landslagið í miðnætursólinni kallaðist á við tilvonandi ofkælingu og þegar öll von var um það bil úti kom Google Maps í símanum til bjargar. Sérlegum fréttaritara Klapptrés tókst nefnilega að villast á Patreksfirði eftir að hafa haft stór orð um að bæjarskipulag svona plássa væri nú ekki sérlega flókið. En honum láðist að taka með í reikinginn að Patreksfjörður er lengsta bæjarfélag landsins miðað við höfðatölu íbúa. Allt fór vel að lokum og eftir langa og stranga nótt við útiveru og sumbl margskonar var gott að fá sér að lúlla í hausinn sinn.
Laugardagurinn rann upp sólríkur og fagur og hitastigið nálgaðist 20 gráðurnar óðfluga. Nú var orðið jafn óþolandi heitt og sólríkt og það var kalt og ömurlegt, nokkrum tímum áður. Hátíðin rúllaði af stað í Skjaldborgarbíó af krafti og náði fréttaritarinn að sjá tvær myndir: Sína eigin – Stolin list, mynd um menningararfleifð á röngum stöðum víðsvegar um heiminn og lausnir á því vandamáli. Leikstjórar og framleiðendur: Þorkell Harðarson og Örn Marinó Arnarson. Gerður var góður rómur að myndinni, enda þora fæstir að úthúða höfundum á frumsýningu. Fréttaritaranum fannst myndin að sjálfsögðu masterpís, enda algerlega óhlutdrægur.
Eftir Stolna list kom myndin Ég er einfaldur maður eftir Ingvar Þórisson. Hún fjallar um Gleb – einfaldan Rússa sem langar til að koma til Íslands og vinna og fá sér konu til að eyða ævinni með. Íslenskir listamenn taka Gleb upp á arma sína og eru að reyna að koma honum á áfangastað í lífinu. Þetta er ævintýramynd þar sem mögnuðustu ævintýrin enda að sjálfsögðu á gólfinu á klippiherberginu, eins og í öllum alvöru heimildamyndum. Eina leiðin til að fræðast um þau er að vera á staðnum, eins og á Skjaldborgarhátíðinni þar sem nándin við leikstjóra og aðstandur myndanna er mikil og þétt.
Eftir þetta var ákveðið að gefa sérlegum fréttaritara Klapptrés eina ölkollu og síðan mæta á viðburðinn Íslenskt schnitzel. Fréttaritarinn hélt að hann væri að fara að horfa á mynd um íslenskan heimilismat og réð sér vart fyrir kæti. En þegar á hólminn var komið voru þetta snillingadúó sem hafði safnað mögnuðum íslenskum myndböndum af YouTube og buðu upp á 40 mínútna sneiðmynd af lífinu eins og það birtist á YouTube, með rafgítarundispili og fróðleik sem inntur var af hendi eftir því sem tilefni gafst til.
Nú var fréttaritarinn orðinn of seinn með Klapptrésgreinina og stakk af úr bíóinu til að sinna samfélagslegum skyldum sínum. Í kvöld verður plokkfiskur í boði kvenfélagsins og aftur verður sest að sumbli og framtíðin rædd og fortíðin krufin. Kollegar fallast í faðma í miðnætursólinni og lofa að haga sér eins og menn framvegis. Svona er nú lífið gott á Skjaldborgarhátíðinni. Meira á morgun, þetta er hvergi nærri búið!