Sýningar hefjast á Eden eftir Snævar Sölvason fimmtudaginn 10. maí.
Myndinni er svo lýst:
Lóa og Óliver eru bæði á flótta þegar þau kynnast, hann frá réttvísinni en hún frá fortíðinni. Þau uppgötva fljótlega að þau hafa samskonar langanir í lífinu og fella hugi saman. En til að láta drauma sína rætast þurfa þau að afla sér peninga og með hjálp litríkra félaga Lóu komast þau í samband við undirheimabarón sem ræður þau í vinnu til að selja fíkniefni á götum Reykjavíkur. Í fyrstu gengur samstarfið vel og ástin blómstrar sem aldrei fyrr, en þegar þau kynnast ógnvænlegum hliðum undirheimanna ákveða þau að taka málin í sínar hendur og hefst þá atburðarás þar sem allt er lagt undir.
Með aðalhlutverk fara Telma Huld Jóhannesdóttir (Webcam) og Hansel Eagle en hann fór með aðalhlutverkið í fyrri mynd Snævars, Albatross (2015).
Töku annast Logi Ingimarsson sem jafnframt klippir. Guðgeir Arngrímsson framleiðir ásamt Loga og Snævari, en þremenningarnir stóðu allir að Albatross.