spot_img

WIFT mótmælir kynjahalla í starfshóp um stefnumótun í kvikmyndamálum

Stjórn Wift á Íslandi: Tinna Hrafnsdóttir, Helga Rakel Rafnsdóttir, Eva Sigurðardóttir, Helga Einarsdóttir og Dögg Mósesdóttir.

WIFT á Íslandi, félag kvenna í kvikmyndum og sjónvarpi, hefur sent frá sér ályktun þar sem því er mótmælt að aðeins 2 konur séu í nýskipuðum starfshóp um kvikmyndamál af 9 alls.

Ályktunin er svohljóðandi:

Mennta- og menningarmálaráðherra hefur skipað verkefnishóp til að vinna að gerð stefnu í kvikmyndamálum sem gilda á frá 1. janúar 2020 til 31. desember 2030. Verður það í fyrsta sinn sem stjórnvöld móta heildstæða stefnu og aðgerðaáætlun á grunni hennar, sem nær yfir hlut kvikmynda í menningu þjóðarinnar, menntun í kvikmyndagerð á öllum skólastigum, miðlun íslensks kvikmyndaefnis og stuðning við framleiðslu kvikmynda.

Í hópnum eru 7 karlar og 2 konur. Þrír af karlmönnunum starfa við fagið, tveir af þeim eru leikstjórar og sá þriðji er framleiðandi og varaformaður nefndarinnar. Hvorug kvennanna hefur starfað við fagið.

Undanfarið ár hefur Wift, Félag kvenna í kvikmyndum og sjónvarpi, unnið mikla endurgjaldslausa vinnu við gerð stórrar samantektar á annars vegar tölfræði sem afhjúpar enn einu sinni kynjahallann í faginu á Íslandi og hins vegar tillögur að aðgerðum í átt að jöfnuði m.a. eftir erlendum fyrirmyndum.  Samantektin var unnin í samstarfi við Kvikmyndamiðstöð og Kvikmyndaráð.

Wift bauð Mennta- og menningarmálaráðuneytinu fram aðstoð við að móta nýja jafnréttisstefnu tengda kvikmyndum og sjónvarpi, allt frá skólakerfinu til fagsins sjálfs og var því vel tekið. Samantektin var kynnt fyrir Allsherjar- og Menntamálanefnd Alþingis og Mennta- og Menningarmálaráðuneytinu og ráðherra við góðar undirtektir. Okkur var tjáð að tillögurnar kæmu á góðum tíma þar sem verið væri að skipa nefnd sem ætti að móta framtíðarstefnu og vonuðumst við til að fá fulltrúa í þessa nefnd.

Þarna hafði ráðuneytið tækifæri til að framkvæma jafnréttisstefnu stjórnvalda, en hefur kosið að gera það ekki.

Wift spyr, hvers vegna það var ekki gert? Hver er afstaða nefndarinnar og ráðuneytisins til jafnréttismála í faginu?

Hvernig voru fulltrúar í nefndinni valdir og út frá hvaða forsendum?

Að lokum krefst Wift  þess að a.m.k. ein kona, starfandi í kvikmyndagerð, sitji í nefndinni og að helmingur nefndarinnar sé skipaður konum.

Stjórn Wift á Íslandi
Helga Rakel Rafnsdóttir formaður
Dögg Mósesdóttir varaformaður
Tinna Hrafnsdóttir
Helga Einarsdóttir
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR