Fjöldi íslenskra kvikmynda ferðast víða um heiminn, á hátíðir, í kvikmyndahús, í sjónvarp og nú á undanförnum árum í efnisveitur. Klapptré birtir nú lista yfir þær íslensku kvikmyndir sem hlotið hafa mesta aðsókn í bíó á heimsvísu.
Hafa þarf í huga að þær tölur sýna aðeins brot af þeim hópi sem horfir á íslenskar myndir víða um heim, en gefur fyrst og fremst vísbendingu um áhuga og velheppnaða markaðssetningu í einstökum löndum. Listinn er (að mestu) byggður á gögnum Lumiere gagnabankans sem European Audiovisual Observatory heldur utan um, en það apparat er á vegum Evrópuráðsins (Council of Europe). Þar er að finna gögn um aðsókn allra evrópskra mynda frá 1996 til 2017 (enn á eftir að færa inn gögn fyrir 2018).
Hafa ber í huga að flestar þessara mynda eru einnig sýndar í sjónvarpi og hin síðari ár birtast sumar þeirra á efnisveitum sem í sumum tilfellum ná til yfir hundrað milljón áskrifenda um allan heim. Tölur um áhorf á íslenskar myndir í þessum miðlum liggja ekki fyrir, en óhætt er þó að fullyrða að þar sé um miklu hærri tölur að ræða.
Með því að smella á heiti myndanna í gagnagrunninum kemur upp ítarlegur sundurliðaður listi eftir löndum. Neðst á síðu viðkomandi myndar er jafnframt sundurliðun á heildaraðsókn innan Evrópu annarsvegar (EUR EU) og alls heimsins hinsvegar (EUR OBS). Inní seinni tölunni er einnig aðsókn á Íslandi. Listinn sem hér fylgir er byggður á seinni tölunni (EUR OBS).
Fróðlegt verður að sjá hvort Undir trénu, Eiðurinn, Lói – þú flýgur aldrei einn og Kona fer í stríð bætast á þennan lista innan tíðar, en þær voru í dreifingu í kvikmyndahúsum víða um heim á síðasta ári.
FYRIRVARI: Rétt er að minna á að upplýsingar getur vantað í sumum tilfellum. Því ber ekki að skoða þetta sem nákvæman lista heldur frekar sem vísbendingar. Sjá fyrirvara Lumiere gagnagrunnsins hér.
Tíu aðsóknarhæstu íslensku kvikmyndirnar á heimsvísu 1996-2017
MYND | AÐSÓKN |
---|---|
Hetjur Valhallar - Þór * | 1,120,809 |
Hrútar | 540,077 |
101 Reykjavík | 432,525 |
Nói albíníói | 348,453 |
Fúsi | 260,662 |
Mýrin | 172,852 |
Englar alheimsins | 139,633 |
Hafið | 130,249 |
Djöflaeyjan | 129,262 |
Hross í oss | 124,425 |
(*Lumiere listinn inniheldur ekki af einhverjum ástæðum tölur frá S-Kóreu varðandi Hetjur Valhallar – Þór. En samkvæmt kóresku vefsíðuni Han Cinema, The Korean Movie and Drama Database, var myndin komin með 739,037 áhorfendur þar í landi eftir fimm sýningarhelgar árið 2012. Sú tala bætist því við tölur Lumiere listans (381,772 miðar seldir). Geti lesendur sýnt fram á gögn sem styðja frekari aðsókn sem ekki er að finna á Lumiere listanum er hægt að hafa samband við ritstjóra hér.)