Íslenskar heimildamyndir eru áberandi á dagskrá RÚV í janúar og fram í febrúar, en alls eru sýnd 12 verk, þar af ein þáttaröð.
Þetta er óvenjuleg framsetning hjá RÚV sem hingað til hefur sýnt á bilinu 20-30 slíkar myndir á ári, en dreift þeim yfir árið. Áhugavert verður að sjá hvernig sjónvarpsáhorfendur taka þessu.
Myndirnar eru:
Skáldagatan í Hveragerði
Illugi Jökulsson fjallar um skáldin sem bjuggu í Skáldagötunni í Hveragerði á árunum 1940-1960. Sýnd eru brot úr gömlum sjónvarpsviðtölum við skáldin og ný viðtöl við ýmsa fræðimenn og ættingja skáldanna. Dagskrárgerð: Jón Egill Bergþórsson.
Garn
Um hóp alþjóðlegra listamanna sem hefur skapað nýja bylgju nútímalistar þar sem þau umbreyta hefðbundnu handverki, hekli og prjónaskap. Í myndinni ferðumst við um undraheima garnsins í ferðalagi sem hefst á Íslandi og nær yfir allan heiminn. Leikstórn: Una Lorenzen, Heather Millard og Þórður Bragi Jónsson. Framleiðsla: Compass Films.
UseLess
Um neyslu mannsins og hvers vegna við hendum eins miklu í ruslið og raun ber vitni. Dagskrárgerð: Rakel Garðarsdóttir og Ágústa M. Ólafsdóttir. Framleiðsla: Vesturport, Vakandi og Landvernd.
Blindrahundur
Um ævi og störf myndlistarmannsins Birgis Andréssonar sem lést árið 2007, aðeins 52 ára að aldri. Báðir foreldrar Birgis voru blindir og hann ólst upp í húsi Blindrafélagsins þar sem hann var sá eini með fulla sjón. Leikstjórn: Kristján Loðmfjörð.
Svona fólk (5 þættir)
Það var fyrst um miðjan áttunda áratug síðustu aldar að íslenskir hommar voguðu sér að stíga fram í dagsljósið. Fyrir þann tíma var heimur samkynhneigðra að mestu hulinn sjónum manna og hommar og lesbíur flest í felum. Þátturinn dregur upp mynd af lífi samkynhneigðra hér á landi fyrir daga skipulagðrar mannréttindabaráttu þeirra. Enn voru lesbíur nær ósýnilegar en fyrsta vitund um hópefli og nauðsyn þess að mynda skipulagðan félagsskap hafði vaknað meðal homma. Iceland Hospitality varð til árið 1975 og Samtökin ’78 þremur árum síðar. Stjórn: Hrafnhildur Gunnarsdóttir.
Lof mér að lifa (endurtekið)
Heimildamynd í tveimur hlutum þar sem kafað er ofan í sögurnar og atburðina á bak við kvikmyndina Lof mér að falla. Fylgst er með fólki í hörðum heimi fíknar sem tengist kvikmyndinni sterkum böndum. Leikstjórn: Sævar Guðmundsson. Umsjón: Jóhannes Kr. Kristjánsson. Framleiðendur: Jóhannes Kr. Kristjánsson, Sævar Guðmundsson, Júlíus Kemp og Ingvar Þórðarsson.
Borða, rækta, elska
Um vistrækt, sem er heildrænt hönnunarkerfi sem horfir til náttúrunnar með það að markmiði að skapa sjálfbært samfélag. Við fylgjumst með ferðalagi til sex landa og sjáum að hægt er að hanna kerfi sem felur í sér vistrækt í næstum hvaða loftslagi sem er. Dagskrárgerð: Þórður Jónsson og Heather Millard. Framleiðandi: Compass ehf.
Hans Jónatan – maðurinn sem stal sjálfum sér
Um óvenjulega ævi Hans Jónatans sem fæddist þræll á eyjunni St. Croix í Karíbahafi árið 1784, barðist fyrir frelsi sínu í Kaupmannahöfn og gerðist síðar verslunarmaður á Djúpavogi. Myndin er byggð á samnefndri bók Gísla Pálssonar, prófessors. Leikstjórn: Valdimar Leifsson. Framleiðsla: Lífsmynd. Aðalhlutverk: George Leite, Edda Björnsdóttir og Yiori Moorhead.
Maðurinn sem minnkaði vistsporið sitt
Heimildarmynd sem leitast við að svara spurningunni um hvernig maður fer að því að lifa í neyslusamfélagi með sjálfbærni í huga. Leikstjóri: Sigurður Eyberg Jóhannesson.
Svarta gengið
Um Þorbjörn Pétursson, fjárbónda og einsetumann sem þurfti að bregða búi vegna veikinda og neyddist í kjölfarið til að fella allt sauðfé sitt. Þar á meðal var fjárhópur sem Þorbjörn hafði alið sérstaklega og kallaði Svarta gengið. Hann ákvað að heiðra minningu Svarta gengisins með þeim hætti sem honum þótti við hæfi og jarðsetja það heima í stað þess að senda það til slátrunar. Dagskrárgerð: Kári G. Schram. Framleiðsla: Moment Films.
Landsliðið
Um hóp Íslendinga sem tók þátt í einni virtustu keppni heims í snjóhöggi, sem haldin er ár hvert í Breckenridge í Colorado í Bandaríkjunum. Enginn úr hópnum hafði áður komið nálægt snjóhöggi og verkið reyndist erfiðara en þeir bjuggust við. Dagskrárgerð: Hafsteinn Gunnar Sigurðsson.
Sjóndeildarhringur
Um listmálarann Georg Guðna Hauksson sem lést árið 2011, aðeins fimmtugur að aldri. Á fyrstu einkasýningu hans í Nýlistasafninu í Reykjavík árið 1985 birtist einstök sýn á íslenskt landslag í fjallamyndum hans sem markaði upphafið að einstökum ferli Georgs Guðna. Leikstjórar: Bergur Bernburg, Bill Rathje og Friðrik Þór Friðriksson. Framleiðandi: Friðrik Þór Friðriksson.