[Stikla] „Vesalings elskendur“ frumsýnd 14. febrúar

Sænsk/íslenska bíómyndin Vesalings elskendur eftir Maxmilian Hult verður frumsýnd í Senubíóunum 14. febrúar næstkomandi. Með helstu hlutverk fara Jóel Sæmundsson, Sara Dögg Ásgeirsdóttir og Björn Thors. Stikla myndarinnar er komin út og má skoða hana hér.

Bræðurnir Óskar og Maggi eru báðir rólegir í tíðinni, en eiga erfitt með náin sambönd, en þeir fást við þetta vandamál hvor á sinn hátt. Óskar reynir að forðast tilfinningaleg tengsl, en Maggi fer í hvert sambandið á fætur öðru. Fjarlægur faðir þeirra á í svipuðum vandamálum, en hefur á einhvern ótrúlegan hátt náð að hanga í sambandi með Guðrúnu en hann hitti hana eftir að fyrri eiginkona hans, barnsmóðir hans, lést þegar drengirnir voru litlir. Dýralæknirinn Anna stendur frammi fyrir mikilvægri ákvörðun, og verður fyrir áhrifum af Óskari. Unga listaspíran Ingibjörg reynir að vaxa úr grasi eins hratt og hún getur og vinirnir 13 ára þeir Danni T og Danni M, halda áfram að lifa sínu venjulega lífi, og dvelja sífellt meira heima hjá Óskari.

Myndin er framleidd af Önnu G. Magnúsdóttur og Anders Granström hjá Little Big Productions í Svíþjóð en Guðrún Edda Þórhannesdóttir og Friðrik Þór Friðriksson hjá Hughrif eru meðframleiðendur. Þau voru einnig meðframleiðendur fyrstu myndar Hult, Hemma, sem einnig var tekin hér á landi og frumsýnd 2013.

Sunna Gunnlaugs gerir tónlist, Tómas Örn Tómasson er tökumaður, Stefanía Thors klippir og Åsa Nilsson gerir leikmynd. Helga I. Stefánsdóttir hannar búninga og Kjartan Kjartansson er hljóðhönnuður.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR