Heimildarmyndin Svona fólk eftir Hrafnhildi Gunnarsdóttur var frumsýnd í Bíó Paradís í gær en almennar sýningar hefjast í dag. Myndin fjallar um baráttu íslenskra homma og lesbía fyrir fullum lagalegum mannréttindum. Sú saga er um margt sérstök og óvenjuleg segir í kynningu, en fáir minnihlutahópar hafa náð jafn langt á eins skömmum tíma og fá samfélög í heiminum tekið eins snöggum stakkaskiptum.
Að sögn Hrafnhildar mun verkið einnig birtast sem þáttaröð í fimm hlutum í RÚV á næsta ári.
Verkefnið hefur verið um aldarfjórðung í vinnslu. Á þessum 25 árum frá því að Hrafnhildur tók fyrsta viðtalið hefur safnast saman u.þ.b. 400 klst af kvikmynduðu efni sem því miður kemst ekki allt fyrir í heimildamyndinni né þáttaröðinni. Það var því ákveðið að gera aðgengileg stóran hluta af viðtölunum bæði í handriti og á kvikmynd fyrir almenning og aðra áhugasama um þessa sögu. Það verður gert á vefsíðunni svonafolk.is þegar frumsýningum er lokið í kvikmyndahúsum og í sjónvarpi fyrir kynslóðir framtíðar.
Halla Kristín Einarsdóttir hefur unnið að klippingu verksins um nokkurra ára skeið og að undanförnu hefur Ísold Uggadóttir einnig komið að klippingunni.
Við frumsýninguna í gær opnaði Lilja Alfreðsdóttir menningar- og menntamálaráðherra umrædda vefsíðu en þar munu í framtíðinni öll viðtölin sem Hrafnhildur Gunnarsdóttir hefur tekið upp í tengslum við þetta verkefni vera aðgengileg, bæði sem textaskjöl og sem vídeófælar fyrir komandi kynslóðir sem vilja kynna sér málefnið til hlítar.