Valdís Óskarsdóttir leikstjóri og klippari verður með meistaraspjall á Northern Wave hátíðinni í menningarmiðstöðinni Frystiklefanum á Rifi í Snæfellsbæ föstudaginn 26. október klukkan 18. Nanna Frank Rasmussen, formaður Samtaka danskra kvikmyndagagnrýnenda, leiðir spjallið.
Meistaraspjallið er undir merkjum Wom@rts verkefnisins sem hefur að markmiði að varpa ljósi á framlag kvenna til evrópskar menningararfleiðar og menningarlegrar fjölbreytni, ásamt því að kljást við kynjamisrétti með því að styðja þátttöku þeirra og sýnileika í menningu og listum á þverfaglegum vettvangi.
Í því skyni styður Wom@rts við hreyfanleika á milli greina, þekkingaröflun, búnað, þjálfun og viðburði og miðar auk þess að því að lagfæra neikvæða tölfræði um þátttöku kvenkyns listamanna og kvenkyns sérfræðinga í menningargeiranum og efla þá viðurkenningu sem þeim hlotnast.
Undir yfirskriftinni „Meet the Masters” munu þeir aðilar sem standa að Wom@rts skipuleggja tvo viðburði hver á árunum 2018, 2019 og 2020, samtals 54 viðburði. Meðal annars verður um að ræða vinnusmiðju/
Valdís er fulltrúi Wom@rts á Íslandi í samtarfi við Samtök kvenna í kvikmyndum og sjónvarpi á Norðurlöndunum (WIFT Nordic). Valdís mun ræða um vegferð sína í kvikmyndagerð og feril sinn sem klippari og afkastamikill kvikmyndagerðarkona. Hún fæddist á Akureyri árið 1950, útskrifaðist frá Danska kvikmyndaskólanum árið 1991 með meistaragráðu í klippingu. Hún er m.a. þekkt fyrir að hafa klippt Festen (1998), Sveitabrúðkaup (2008, einnig leikstjóri) og Eternal Sunshine of the Spotless Mind (2004), en fyrir þá mynd hlaut hún BAFTA-verðlaunin árið 2005. Seinast leikstýrði hún Kóngavegi (2010) og vann Edduverðlaunin fyrir klippingu á þáttunum Fangar (2018).