Hrollvekjan Malevolent, í leikstjórn Ólafs de Fleur Jóhannessonar, verður frumsýnd á streymisveitunni Netflix á morgun, föstudag. Morgunblaðið ræddi við hann í tilefni þessa.
Úr viðtalinu:
Ansi langt er um liðið frá því síðast spurðist til Ólafs og engu líkara en hann hafi lagst í híði. Blaðamaður ræddi síðast við hann í maí árið 2015 og þá um sömu kvikmynd sem reyndar hét þá Hush og átti að vera með annarri leikkonu í aðalhlutverki, Sophie Cookson. Eins eins og gengur í kvikmyndabransanum breyttust áætlanir, Cookson reyndist of upptekin fyrir verkefnið og önnur leikkona var því fundin í hennar stað og titli kvikmyndarinnar var líka breytt. Tökur hófust svo árið 2016.
En hvar hefur Ólafur eiginlega verið?
„Ég þaggaði aðeins niður í mér og lærði að lesa og skrifa upp á nýtt,“ svarar hann, kátur að vanda. Hvað á hann við með því? „Það er búið að vera mikið álag á mér, eins og gengur og sérstaklega eftir að ég skaut þessa mynd. Ég ákvað því að fara bara að æfa mig í að skrifa kvikmyndahandrit.
Ég var búinn að gera mikið af því en langaði til að endurræsa mig og tók mér góðan tíma í að hreinsa pallettuna og læra þetta upp á nýtt. Þetta hefur verið rosalega gefandi og ég hef verið að skrifa mikið,“ svarar Ólafur. Bæði hafi hann skrifað fyrir sjálfan sig og fengið góð verkefni erlendis frá sem hann sé að vinna í þessa dagana.
Marineringin er mikilvæg
Ólafur segir langt ferli að baki Malevolent, nýir leikarar hafi m.a. verið fundnir og handritið betrumbætt áður en ráðist var í tökur. Að þeim loknum tók svo klippingin við og stóð yfir í eina 18 mánuði með hléum. „Þessi marineringartími gerir oft gæfumuninn,“ segir Ólafur um þennan langa tíma sem myndin var í klippiherberginu.
– Marineringin er líka lykilatriði þegar maður er að grilla …
„Jú, jú, nákvæmlega og það er ekki oft sem það er hægt en þarna var það blessunarlega hægt,“ segir Ólafur. Allur gangur sé á því hversu langan tíma klipping taki í kvikmyndagerðarferlinu. „Yfirleitt eru þetta þrír mánuðir sem maður fær í leikstjóraklippið og svo tekur annar klippari við. Svo kem ég inn aftur og sá þriðji og svo gengur þetta bara hægt og rólega,“ útskýrir hann.
Ólafur segir það hafa verið áhugaverða reynslu að vinna í bandarísku kvikmyndabatteríi og geta einbeitt sér alfarið að leikstjórninni. Hann hafi oftast framleitt sjálfur sínar kvikmyndir og blessunarlega getað sleppt þeim hluta kvikmyndagerðarinnar að þessu sinni.
[…]
Nýi völlurinn
„Þetta er bara nýi völlurinn,“ segir Ólafur um sýningarvettvang kvikmyndarinnar, hina gríðarvinsælu streymisveitu Netflix. „Aðgengi er orðið svo rosalega gott að þetta verður varla mikið betra, að komast upp á svona svið,“ bætir hann við.
– Hefurðu fengið fleiri verkefni út á þessa kvikmynd?
„Það á bara eftir að koma í ljós,“ svarar Ólafur sem er að vanda með nokkur verkefni á teikniborðinu. „Ég hef verið að skrifa og líka kenna svolítið handritaskrif. Svo hef ég verið að æfa fólk í kvikmyndaleik, litla hópa,“ segir hann.
En hvert er næsta leikstjórnarverkefni Ólafs de Fleur Jóhannessonar? „Ég er að fara að gera heimildarmynd í Los Angeles á næsta ári og svo er ég bara að skoða nokkur verkefni,“ segir Ólafur. Um heimildarmyndina vill hann sem minnst segja að svo stöddu.
Sjá nánar hér: „Verður varla mikið betra“