Tökur eru hafnar á kvikmyndinni Rams í Ástralíu, en myndin er endurgerð á Hrútum Gríms Hákonarsonar. Hinn heimskunni ástralski leikari Sam Neill fer með annað aðalhlutverkið, Gumma, sem Sigurður Sigurjónsson lék í mynd Gríms. Michael Caton fer með hlutverk Kidda sem Theódór Júlíusson lék. Verkið er sagt „endursköpun“ (reimagining) í fréttatilkynningu frá framleiðendum.
„Rams er algerlega ný túlkun á upprunalegu myndinni og langt frá því að vera endurgerð, heldur mun þessi sammannlega saga verða sett í skýrt ástralskt samhengi,“ segir í tilkynningunni.
Leikstjóri er Jeremy Sims, en hann hefur meðal annars áður unnið með Caton að kvikmyndinni Last Cab to Darwin.
Sjá frétt Variety um málið hér.
Þess má svo geta að Klapptré hlerar að undirbúningur S-Kóreskrar endurgerðar af Hrútum sé í fullum gangi og er stefnt að því að ganga frá ráðningu leikstjóra fyrir áramót.