„Fantavel leikin og í grunninn vel gerð bíómynd um brýnt efni sem verður langdregin vegna þess að höfundarnir gera hana af alúð og virðingu og liggur meira á hjarta en formið þolir,“ segir Þórarinn Þórarinsson hjá Fréttablaðinu um Lof mér að falla Baldvins Z.
Þórarinn skrifar meðal annars:
Lof mér að falla er ekki auðveld mynd á að horfa enda raunsönn og óvægin lýsing á ömurlegum veruleika ungra fíkla. Hún er í það minnsta 40 mínútum of löng, langdregin semsagt, hrá, ljót og á köflum nánast leiðinleg. Svolítið eins og dauðastríð fíkla þannig að ekki verður af höfundum myndarinnar tekið að þeim tekst listavel að koma sögunni til skila.
[…]Lof mér að falla hefur verið áberandi í umræðunni síðustu vikur enda þykir hún vera einhvers konar opinberun. „Venjulegt“ fólk er sagt alveg miður sín og í mauki eftir að hafa horft á myndina og allt í einu eru allir orðnir mjög meðvitaðir um hversu viðbjóðslegur veruleiki ungra fíkla er í raun og veru.
Ógeðslegur heimur
[…]
Ekki ætla ég að gera lítið úr því og vona að sem allra flestir leggi þessa hlélausu 136 mínútna harmsögu á sig í kvikmyndahúsum. Þeir sem verða beinlínis fyrir áfalli yfir því sem fyrir augu ber mættu líka alveg eiga langt eintal við sjálfa sig og samvisku sína ef það þurfti virkilega dramatíseraða bíómynd til þess að troða því inn í hausinn á þeim að það er ekkert fallegt, spennandi eða skemmtilegt við þann ógeðslega heim sem langt leiddir fíklar búa í.Þótt vel sé vandað til verka í hvívetna liggur styrkur myndarinnar fyrst og fremst í frábærum leik Elínar Sifjar og Kristínar Þóru sem leika Magneu unga og fullorðna þegar götulífið hefur gersamlega bugað hana, og sömuleiðis Eyrúnar Bjarkar og Láru Jóhönnu sem leika Stellu á sömu aldursskeiðum.
Elín Sif ristir ofsalega djúpt í næmri og hyldjúpri túlkun sinni á Magneu ungri þannig að maður þjáist með henni alla leið og Kristín Þóra umbreytist sannfærandi í flakið sem unga stúlkan breytist í.
Helsti galli myndarinnar er að hún er of löng og verður langdregin á endasprettinum. Framan af heldur hún hins vegar fullum dampi og Baldvin fer á kostum í notkun á myndmáli og byggir upp hverja senuna á fætur annarri af mikilli íþrótt.
Sjá nánar hér: visir.is