Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, hefur lagt fram frumvarp sem kveður á um breytingar á kvikmyndalögum. Þar er meðal annars skýrar en áður kveðið á um hverjir geta sótt um styrki og hverskonar verk má styrkja, þá er nýtt ákvæði um sýningarstyrki og ráðningartíma forstöðumanns auk þess sem lagðar eru til ítarlegri reglur um störf ráðgjafa.
(Frumvarpið má lesa hér).
Kjarninn fjallar um málið. Í frétt Kjarnans segir meðal annars:
Frumvarpið byggir á athugasemdum frá hagsmunaaðilum og kvikmyndaráði auk þess sem færa þurfti ákvæði kvikmyndalaga til samræmis við alþjóðlegar skuldbindingar.
Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að markmið þess sé að færa framkvæmd úthlutana Kvikmyndasjóðs til samræmis við nýjar leiðbeinandi reglur um ríkisaðstoð til kvikmynda og annarra hljóð og myndmiðlunarverka sem eftirlitsstofnun EFTA (ESA) samþykkti á vormánuðum 2014.
Og ennfremur:
Í frumvarpinu er líka litið til tillagna kvikmyndaráðs um breytingar á kvikmyndalögum og samkomulags um stefnumörkun fyrir íslenska kvikmyndagerð árin 2016–2019. Þar er lagt til að tekin verði upp í kvikmyndalög ákvæði um sýningarstyrki en 31. desember 2016 féllu úr gildi lög um styrki vegna sýninga á kvikmyndum á íslensku í kvikmyndahúsum hér á landi. Þá hafa ný lög um ríkisfjármál haft í för með sér breytingar á skilgreiningu á hlutverki forstöðumanna og einnig er tillaga um nýtt ákvæði um hámarksskipunartíma forstöðumanns Kvikmyndamiðstöðvar Íslands til samræmis við t.d. skipun þjóðleikhússtjóra og safnstjóra Listasafns Íslands. „Að lokum er brugðist við ábendingum umboðsmanns Alþingis um að setja ítarlegri reglur um störf kvikmyndaráðgjafa og að gæta verði að sjónarmiðum um gagnsæi og jafnræði um stjórnsýslu þessara mála.“
Sjá nánar hér: Útlendingar mega sækja um styrki til Kvikmyndasjóðs en einungis íslenskar myndir fá þá