Andrey Zvyagintsev um „Loveless“: Við erum alls ekki stikkfrí

Andrey Zvyagintsev leikstjóri Loveless.

Nýjasta mynd Andreys Zvyagintsevs, Loveless eða Nelyubov eins og hún heitir á frummálinu, verður sýnd á Stockfish hátíðinni sem hefst 1. mars. Myndin er jafnframt tilnefnd til Óskarsverðlauna í flokki erlendra mynda í ár. Davíð Kjartan Gestsson hjá Menningarvef RÚV ræddi við leikstjórann.

Úr viðtalinu:

Loveless fjallar um foreldra, Boris og Zhenyu, sem eiga í heiftúðugum skilnaði. Saman eiga þau eitt barn, hinn 12 ára Alyosha, saklaust fórnarlamb uppsafnaðrar fyrirlitningar foreldra sinna. Alyosha flýr að heiman, en það rennur ekki upp fyrir foreldrum hans fyrr en tveimur dögum síðar að hann er horfinn. „Myndin fjallar um samskipti manneskja,“ segir Andrey Zvyagintsev. „Hún fjallar um þessa fjölskyldu, um fólk og hvernig við eigum í samskiptum við hvert annað í þessum heimi.“

Það fer ekki á milli mála að foreldrunum er meira annt um eigin hamingju og velferð en barnsins síns. Bæði eru þau of upptekin af nýjum ástarsamböndum til að sinna syni sínum og móðirin tekur ekki augun af símanum þegar hún hreytir í hann ónotum. Snjallsímanotkun er raunar ákveðinn þráður í myndinni og ljóst að Zvyagintsev hefur sitt hvað að segja um áhrif tækjanna og samfélagsmiðla á mannleg samskipti. „Þessi tæki, sem við erum sannarlega niðursokkin í, voru óhugsandi fyrir einungis tíu árum,“ segir Zvyagintsev.  „Þau varpa ljósi á samband okkar við umheiminn. Tækin hafa á engan hátt breytt eðli manneskjunnar. Þau eru spegill, ef svo mætti kalla, sem við sjáum okkur og þjóðfélagið í.“

Í myndinni verða áhorfendur vitni að eitruðu sambandi móður stráksins við ömmu hans. Ég spyr leikstjórann hvort hann sé að varpa ljósi á keðjuverkandi áhrif kaldlyndis og illrar meðferðar milli kynslóða. „Fyrir mér er þetta spurning um samfellu,“ svarar hann. „Ný kynslóð erfir lesti þeirrar sem á undan kemur. Við getum samt vitanlega ekki skellt skuldinni á eldri kynslóðir, við erum alls ekki stikkfrí. Það voru foreldrar okkar sem gerðu okkur að þeim manneskjum sem við erum í dag, en við erum fullorðnar manneskjur og berum ábyrgð á okkar gjörðum og ævi.“

Veruleiki sem kemur okkur öllum við

Ef Zvyagintsev er sjálfur að bregða spegli upp að rússnesku þjóðfélagi í mynd sinni – þá er framtíð þjóðarinnar ekki björt. Loveless er myrk og kaldranaleg mynd um sjálfhverft fólk sem á sér litlar málsbætur. Manni líður ekki vel í návist Borisar og Zhenyu og fyrstu viðbrögð eftir að myndinni lýkur eru að hlaupa til og faðma einhvern sem er manni nákominn. Ég spyr því leikstjórann hvort bölsýni geti leitt gott af sér. „Ég skil að myndirnar mínar og þá sérstaklega Loveless eru gegnsýrðar af svartsýni,“ segir hann. „Ég veit ekki hvort það geti leitt gott af sér eða ekki. Það sem ég veit er að svona líður mér, svona sé ég veröldina og svona finnst mér að ég ætti að tjá sýn mína.“

Sjá nánar hér: Myrk sýn umdeildasta leikstjóra Rússlands

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR