Lestin á Rás 1 um „Svaninn“: Alvörugefin og draumkennd

Þuríður Blær Jóhannesdóttir og Gríma Valsdóttir í Svaninum.

Gunnar Theódór Eggertsson fjallar um Svaninn eftir Ásu Helgu Hjörleifsdóttur í Lestinni á Rás 1 og segir myndina djúpa og úthugsaða með mörg lög af efnivið.

Úr umsögninni:

Svanurinn einkennist af mikilli nánd við aðalpersónuna og sjónarhorn hennar. Myndin verður nánast áþreifanleg á köflum, allt frá því að öldugangurinn í upphafi myndar skolar okkur upp á land og við færumst beint ofan í þangið í fjörunni, inn í skynveröld Sólar. Mér fannst ég nánast geta snert þangið, grasið, hárið, klæðin, dauða flugu, könguló sem skríður á milli fingra; þannig fangar myndin sjónarhorn stúlkunnar á einlægan og heillandi hátt svo varla er annað hægt en að hrífast með. Þetta gerist fyrst og fremst í gegnum myndatökuna, því vélin dvelur mikið við andlit stúlkunnar, sem er fyrir miðju nánast út alla myndina, en við ferðumst líka beint inn í sjónarhorn hennar, oft í stuttum og hröðum skotum, sem skapa fallega hrynjandi í gegnum klippinguna. Við horfum með augum hennar og upplifum þessa miklu nánd við umhverfið.

[…]

Tengsl draumóra, raunveruleika og ljóðrænu

En það er ekki bara myndatakan sem fangar sjónarhorn aðalpersónunnar, heldur líka tónninn í myndinni sjálfri, sem kallast á við Sól; alvörugefin og draumkennd, kannski dálítið fljúgandi og skrítin líka, og tengsl draumóra, raunveruleika og ljóðrænu eru í stanslausu flæði. Það er kannski ekki mikil gleði í myndinni, en hún verður þó aldrei yfirmáta þung, einmitt vegna þess hversu draumkennd hún er. Sól segir sögur af einhvers konar tvífara sínum, stúlku sem er föst í draumi, hverfur niður á hafsbotn eða leyfir grasinu að faðma sig, og tvífarann má einnig skynja sem táknrænan fyrir þroskasöguna og þá kviknandi kynvitund sem er svo sterkur undirtónn í myndinni og auðvitað afar vandmeðfarið efni í kvikmynd. Ása Helga nálgast þann hluta sögunnar á snjallan og óbeinan hátt, nýtir sér takmarkað sjónarhorn aðalpersónunnar og treystir áhorfendum til að taka við púslinu og fylla sjálfir í eyðurnar. Það er heilmikil dýpt í Svaninum og mörg lög af efnivið sem hægt er að kafa ofan í og pæla í, því Ása Helga hefur jafnframt mjög sterk tök á því að vinna með undirtóna og að vissu leyti undirvitund aðalpersónunnar. Myndin virkar úthugsuð og útpæld – enda liggur mikil vinna að baki handritinu og það sést, því sem áhorfandi skynjaði ég heilmikla persónusköpun í gegnum myndræna þætti og úr umhverfinu sjálfu.

Gott jafnvægi myndmáls og texta

Enn og aftur endurspeglar Svanurinn þarna aðalpersónuna, Sól, sem segir líka sögur, er þó hrifnari af óútgefnum sögum heldur en „alvöru bókum“, sögum sem hún á út af fyrir sig og segir aðallega kálfinum, vini sínum, frá, rétt eins og vinnumaðurinn sem skrifar að því er virðist fyrir sjálfan sig, eða ímyndaða framtíðareiginkonu. Saman eru þau í ákveðinni andstæðu við hitt fólkið á bænum, sem er fært í orð af dótturinni sem ásakar móður sína um að sjá heiminn einungis út frá notagildi hluta, en gleyma því ljóðræna og fagra.

[…]

Söguefni myndarinnar er annars kunnuglegt, þroskasaga úr sveit, íslensk einangrun og náttúra, en rétt eins og með Hjartastein í fyrra er það framsetningin, kvikmyndrænn styrkleiki og næmni leikstjórans sem gerir myndina sérstaklega góða.

Sjá nánar hér: Alvörugefinn og draumkenndur Svanur

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR