Morgunblaðið um „Svaninn“: Stúlkan með kálfsaugun

Gríma Valsdóttir fer með aðalhlutverkið í Svaninum.

„Brotakennd frásögnin og draumkennd myndatakan kallar fram hugrenningatengsl við myndir Terrence Malick, án þess þó að Svanurinn fari jafngríðarlega frjálslega með frásögn og þær myndir,“ segir Brynja Hjálmsdóttir í Morgunblaðinu um Svaninn eftir Ásu Helgu Hjörleifsdóttir. Hún gefur myndinni þrjár og hálfa stjörnu.

Úr umsögninni:

Í upphafi myndarinnar, þegar stúlkan er að kynnast umhverfi sínu, tekur myndavélin sér hlutverk forvitins barnsauga, sem grandskoðar í nærmynd fluguhræ í gluggakistum, ryk á bókahillum og blómin í túninu. Þessi miðlunaraðferð verður nokkuð gegnumgangandi í myndinni. Annað stílbragð sem er notað er að bregða einhverju hálfgagnsæju fyrir linsuna eins og sjali, hári eða einhverju þess háttar og þar með verður sjónarhorn áhorfandans bókstaflega „takmarkað“. Þetta ljær myndinni líka dularfullt yfirbragð og gefur til kynna að það sem fyrir augu ber sé líkt og minning, upprifjun eða draumur.

[…]

Leikararnir í myndinni standa sig með prýði og sérstaklega ber að nefna Grímu Valsdóttur sem leikur aðalhlutverkið. Það er magnað að sjá slíka frammistöðu hjá svo ungri leikkonu. Einnig er Blær Jóhannsdóttir firnasterk í hlutverki dótturinnar en leikur hennar á ríkan þátt í því að dóttirin er líklega áhugaverðasta persóna myndarinnar.

Brotakennd frásögnin og draumkennd myndatakan kallar fram hugrenningatengsl við myndir Terrence Malick, án þess þó að Svanurinn fari jafngríðarlega frjálslega með frásögn og þær myndir. Yfirbragð myndarinnar hentar prýðilega til að miðla sjónarhorni ungu stúlkunar en það kemur e.t.v. niður á byggingu hinna persónanna, þar sem manni finnst stundum eins og maður fái ekki að kynnast þeim nógu vel. Landslagsmyndir og könnunarskot í náttúrunni eru ríkulega nýtt, sem rímar við sögu myndarinnar sem snýst m.a. um tengsl stúlku og náttúru. Þessar senur voru vissulega fallegar en stundum skorti þær slagkraft og manni fannst eins og verið væri að feta troðnar slóðir. Þá er spurning hvernig útlit myndarinnar leggst í áhorfendur, í það minnsta var samferðafólk með ólíkar skoðanir sérstaklega hvað varðar útlit myndarinnar og kvikmyndatöku.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR