spot_img

Guðmundur Andri um „Reyni sterka“: Hugsjón íslenska karlmannsins um frelsi og líf á eigin forsendum

Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur og þingmaður skrifar um heimildamyndina Reyni sterka eftir Baldvin Z. á fésbókarsíðu sína í kjölfar sýningar á myndinni á RÚV á nýársdag. Hann segir meðal annars: „Mögnuð mynd, sem leiddi hugann að gömlum sagnaþáttum og þjóðlegum fróðleik; kannski að í þessari mynd hafi íslenskum kvikmyndagerðarmanni lánast að tengja list sína við þennan mikilvæga en forsmáða hluta íslenskra bókmennta.“ Umsögn hans er birt hér í heild með leyfi höfundar.

Ég horfði loksins í gærkvöldi á myndina um Reyni sterka eftir Baldvin Z. Mögnuð mynd, sem leiddi hugann að gömlum sagnaþáttum og þjóðlegum fróðleik; kannski að í þessari mynd hafi íslenskum kvikmyndagerðarmanni lánast að tengja list sína við þennan mikilvæga en forsmáða hluta íslenskra bókmennta.

Óvenju mikið myndefni er til um Reyni, sem er Vilhjálmi Knudsen að þakka, og fyrir vikið fengum við líka að sjá hvernig umhorfs var á áttunda áratugnum þegar fólk var að berjast við að koma sér upp „þaki yfir höfuðið“ en fáu öðru, hafðist við í fokheldum steinkumböldum en allt í kring ríkti grámóskan ein og varla stingandi strá en alltaf rok og rigning. Þá var hið manngerða umhverfi landsins einhvers konar öræfi. Órækt, innra sem ytra.

Reynir sterki var ein af karlhetjunum hér á landi þegar ég var unglingur og þegar maður sér myndina áttar maður sig á því að hann hefur verið mýtusækinn maður, leitast við að skapa um sig mýtu; hefur haft meiri áhuga á sögunni um sjálfan sig en því að skapa fjölskyldunni eða sjálfum sér gott og öruggt líf. Þetta hugarástand var sérstaklega nokkuð útbreidd hér á landi og hefur verið kennt við „sæmdarþorsta“. Eiginlega er Reynir beint út úr Íslendingasögunum og saga hans sú sama og saga karlhetjanna þar: Gunnars, Grettis sterka, Kjartans, Finnboga ramma, Björns Hítdælakappa, Björns Breiðvíkingakappa, Gísla Súrssonar – rammir að afli og öðrum fremri um vaskleik og allar íþróttir – sprangandi um á litklæðum með gullhringi – en falla á eigin veikleika, sem oftar en ekki er ofsi, sem á grísku er nefndur „hybris“. Það gerir Reynir líka: móðir hans áminnir hann um að hælast ekki um af styrk sínum og nota hann ekki til hégóma; hann sinnir þeim varnaðarorðum ekki og virðist ofreyna sig við að brjótast út úr fangaklefa meðan fjölmiðlarnir bíða í ofvæni frammi (gaman að sjá þá bræður Gissur og Ólaf). Verður ekki samur maður eftir þessa glímu sína við sinn Glám.

Reynir er ættaður frá Söguöld, hann er úr vídd sagnanna, en þegar maður horfir á hann er þetta dæmigerður töffari áttunda áratugarins. Í fasi og framgöngu minnir hann meira á Steve McQueen en íslenskan sveitalúða. Sagan af bílaeiltingaleiknum er beint úr sagnaheimi Hollywood og líka frásagnir af myndinni sem hann gerði til að vara við hættum í umferðinni, sem eftir öllum sólarmerkjum að dæma var fyrsta „Fast and Furious“-myndin.

Og um leið er Reynir líka eitthvað svo íslenskur; hann er einn „sterku mönnunum“ úr þjóðsögum Sigfúsar Sigfússonar. Hann er líka Fjalla-Eyvindur: hugsjón íslenska karlmannsins um frelsi og líf á eigin forsendum; sá sem aldrei kemst undir manna hendur, aldrei verður fjötraður, sleppur alltaf undan, hefst við í óbyggðum og gerir allt eftir sínu höfði af miklum hagleik, nema nú beinist hagleikurinn og hugvitið ekki að smíðum heldur að bílum. Og hann er vitur og sér lengra nefi sínu, er í sérstöku sambandi við huliðsöfl og handanheima. Dýrafylgja er með honum og varar hann við hættum – kálfur – og þannig er tenging í myndinni við heiðni sem nær aftur fyrir kristni og jafnvel aftur fyrir ásatrú; hann er náttúrubarn, þetta er maður í sérstöku sambandi við einhverja náttúruorku, önnur skýring er enn ekki komin fram á yfirnáttúrlegum styrk hans, þó að töframaður í myndinni sé staðfaslega þeirrar trúar að um sjónhverfingar hafi verið að ræða. En sem sé: mögnuð mynd.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR