spot_img

100 þúsund sinnum horft á „Stellu Blómkvist“ þættina á fyrstu dögunum

Framúrskarandi móttökur á sjónvarpsþáttunum um Stellu Blómkvist staðfesta að Síminn getur framleitt innlent efni í meira mæli, segir Magnús Ragnarsson framkvæmdastjóri afþreyingarmiðla og sölu Símans í spjalli við Viðskiptablaðið.

Í frétt Viðskiptablaðsins segir einnig meðal annars:

Horft var á fyrsta þáttinn á 42% allra heimila með Sjónvarp Símans Premium nú um helgina en öll serían var birt í efnisveitunni á föstudag.

„Við renndum blint í sjóinn. Aldrei áður hefur íslensk sería farið í heilu lagi inn í gagnvirkt sjónvarpskerfi. Við  vissum hinsvegar að efnið væri gott og viðtökurnar eru langt umfram væntingar,“ segir Magnús.

„Ánægjulegast er að þetta staðfestir að okkur er kleift að fjármagna og framleiða íslenskt efni fyrir þessa innlendu efnisveitu okkar. Ávinningurinn er sýnilegur eftir þessa fyrstu helgi Stellu í sýningu og sannfærir okkur um að við eigum að framleiða meira af íslensku efni í samkeppni okkar við erlendar efnisveitur eins og Netflix. Við erum á réttri leið,“ segir hann.

Stella Blómkvist sló á fyrstu þremur sólarhringunum met í Sjónvarpi Símans. Og nú á þriðjudagsmorgni hafa þættirnir verið spilaðir um 100 þúsund sinnum. Þegar hefur sjötti þátturinn verið spilaður á um 12% heimila með áskrift og því ljóst að þúsundir hafa þegar horft á alla sex þættina.

Sjá nánar hér: Viðskiptablaðið – Stella Blómkvist slær met

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR