Brynja Hjálmsdóttir skrifar um heimildamyndina Varnarliðið – Kaldastríðsútvörður í Morgunblaðið og segir takmarkaða vinnu lagða í að gera efnið spennandi.
Brynja segir meðal annars:
Í Varnarliðinu er upplestur þularins settur í forgang. Til allrar óhamingju fá viðtölin, sem innihalda margar skemmtilegar frásagnir, afar lítið að njóta sín. Kosið er að valta yfir viðtöl og efni sem er raunverulega áhugavert með þurrum og niðurdrepandi upptalningum á sögulegum staðreyndum. Mikil áhersla er lögð á að segja frá hernaðarlegum smáatriðum, eiginleikar tiltekinna flugvéla eru vandlega útlistaðir og mikið fjallað um ratsjár og kafbáta. Þetta gleður vísast áhugafólk um herkænsku en fyrir leikmann verður þetta leiðigjarnt og takmörkuð vinna er lögð í að gera efnið spennandi.
Myndin bregst einnig í því fræðsluhlutverki sem hún virðist stefna að. Það er farið hratt yfir sögu, reynt er að gera grein fyrir ógrynni af efni og sjaldnast staldrað nógu lengi við til þess að maður geti sokkið inn í hvert og eitt viðfangsefni. Því er maður fljótur að missa athyglina og myndin verður þvæld og langdregin.
Mestur söknuður er að viðtölum og öðru bitastæðu efni, sem er fórnað til þess að skapa rými fyrir upplestur. Kvikmyndaformið er uppfullt af möguleikum og maður veltir fyrir sér af hverju kvikmyndagerðarmenn sem eru með áhugaverðan efnivið í höndunum kjósa að miðla honum með svo óinnblásnum hætti. Því sem birtist á skjánum í Varnarliðinu hefði allt eins mátt miðla í texta.