Færeyingar stofna kvikmyndamiðstöð – auglýst eftir forstöðumanni

Þórshöfn í Færeyjum (Mynd af Wikipedia).

Færeyingar hafa stofnað kvikmyndamiðstöð – Filmshúsið – sem ætlað er að fjárfesta í innlendri kvikmyndagerð, efla erlenda fjárfestingu í kvikmyndum og markaðssetja Færeyjar sem vettvang kvikmyndagerðar. Auglýst hefur verið eftir forstöðumanni.

Nordic Film and TV News segir frá.

Um 33 milljónir íslenskra króna (2 milljónir danskra króna) verða í kvikmyndasjóði Filmshússins en um 16,5 milljónir króna (1 milljón danskra) eru lagðar fram í stuðning við markaðssetningu og stuðning við erlenda fjárfestingu.

Til samanburðar má geta þess að þegar Kvikmyndasjóði Íslands var komið á fót 1979 úthlutaði hann 29,5 milljónum (gamalla) króna fyrsta árið. Það samsvarar um 32 milljónum króna í dag.

Ný kynslóð færeysks kvikmyndagerðarfólks, sem og aukinn áhugi erlendra aðila á Færeyjum sem tökuvettvangi eru að baki ákvörðunar færeyskra stjórnvalda um að setja kvikmyndamiðstöð á fót. Íbúar Færeyja eru um 50 þúsund, en þar er aðeins að finna eitt framleiðslufyrirtæki (Fish & Film) og eina sjónvarpsstöð (Kringvarp Føroya), auk fræðslumiðstöðvar í kvikmyndagerð (Klippfisk). Engu að síður segir Jan Berg Jørgensen, stjórnarformaður Filmshússins að nú sé runnin upp tími til að setja upp innviði og stuðla að sjálfbærni færeyskrar kvikmyndagerðar.

Á síðasta ári sá Jørgensen um að þjónusta Wim Wenders og teymi hans við tökur á kvikmyndinni Submergence, með þáttöku færeysks starfsliðs.

Frumherji færeyskrar kvikmyndagerðar, Katrin Ottarsdóttir, stundaði nám við Danska kvikmyndaskólann á sínum tíma og var fyrsti færeyski leikstjórinn til að gera mynd í fullri lengd (Atlantic Rhapsody, 1989). Hún hefur orðið nýrri kynslóð innblástur og má þar nefna Sakaris Stórá sem hlaut verðlaun fyrir stuttmynd sína Winter Morning á Berlínarhátíðinni og hefur nú sent frá sér bíómyndina Dreams by the Sea, en þar var meirihluti starfslið færeyskur. Myndin var framleidd af Fish & Film og Adomeit Film í Danmörku.

Annar ungur leikstjóri er Anton Petersen sem leikstýrði bíómyndinni Ballada, sem hluta af námi sínu hjá Sarajevo Film Academy undir stjórn Béla Tarr. “Við erum með fimm leikstjóra sem eru tilbúnir að fara af stað með sínar fyrstu myndir. Við viljum að þeir fá aðgang að fjármagni og almennan stuðning til að vinna verk sín án þess að þurfa að byrja með tvær hendur tómar í hvert sinn,“ segir Jørgensen.

Hér má skoða auglýsinguna um forstöðumanninn.

Sjá nánar hér: New Faroese Film Institute Has Opened – Managing Director wanted

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR