MIPCOM markaðurinn fer fram í Cannes í Frakklandi þessa vikuna, en þar koma saman helstu fyrirtæki á heimsvísu til að selja, sýna og kaupa nýtt sjónvarpsefni af öllum toga. Sagafilm tekur nú þátt í markaðinum í tuttugasta sinn og kynnir þar fjölda verkefna.
Verkefni Sagafilm spanna allt frá leiknu dramatísku sjónvarpsefni, yfir í skemmtiþætti, teiknimynd, 8 heimildamyndir á mismundandi stigum framleiðslu og verkefni sem fyrirtækið er að meðframleiða með erlendum samstarfsaðilum.
Flaggskip Sagafilm um þessar mundir, þáttaröðin Stella Blómkvist, verður frumsýnd á MIPCOM. Heiða Reed (Poldark) er í aðalhlutverki í þáttaröðinni og leikur samnefnan lögfræðing sem lætur sér fátt fyrir brjósti brenna. Þáttaröðinni er leikstýrt af Óskari Þór Axelssyni, handrit skrifa Jóhann Ævar Grímsson, Andri Óttarsson og Nanna Kristín Magnúsdóttir. Stella Blómkvist verður frumsýnd hér heima í Sjónvarpi Símans Premium í seinnihluta nóvember. Þáttaröðin er samframleiðsla Sagafilm og Viaplay og Red Arrow International dreifir þáttaröðinni á alþjóða vettvangi. Hún hefur þegar verið seld til sýninga í hátt í 20 löndum.
Kvikmyndin Víti í Vestmannaeyjum var tekin upp í sumar og byggir á samnefndri bók Gunnars Helgasonar. Gert er ráð fyrir að kvikmyndin verði frumsýnd í mars 2018. Búið er að þróa verkefnið þannig að auk kvikmyndarinnar verður efnið sem tekið var upp í sumar líka boðið sem 6 þátta sjónvarpsþáttaröð. Þetta er þroskasaga Jóns sem fer á sitt fyrsta knattspyrnumót í Vestmannaeyjum. Þar þarf hann að takast á við sjálfan sig og aðra, bæði innan vallar sem utan. Jóhann Ævar Grímsson, Ottó Geir Borg og Gunnar Helgason skrifa handrit kvikmyndarinnar, sem er leikstýrt af Braga Þór Hinrikssyni. Sambíóin dreifa Víti í Vestmannaeyjum á Íslandi, auk þess sem RÚV hefur tryggt sér sýningarrétt kvikmyndarinnar. Level K dreifir kvikmyndinni á heimsvísu og mun kynning á henni hefjast á kvikmyndahátíðinni í Berlín í febrúar næstkomandi.
Flateyjargáta byggir á samnefndri bók Viktors Arnar Ingólfssonar sem var tilnefnd til norrænu glæpasagna verðlaunanna og hefur verið gefin út í um 32 löndum, víðsvegar um heiminn. Sjónvarpsþáttaröðin er að fullu fjármögnuð og tökur á henni hefjast vorið 2018. Allar opinberu norrænu sjónvarpsstöðvarnar hafa keypt sýningarrétt að þáttaröðinni. Sagan hefst vorið 1971 þegar Jóhanna, prófessor í norrænum fræðum er ásökuð um morð. Til að sanna sakleysi sitt þarf Jóhanna að leysa ráðgátu Flateyjarbókar. Þáttaröðin er samframleiðsla Reykjavík Films og Sagafilm. Margrét Örnólfsdóttir skrifar handrit og Björn Br. Björnsson leikstýrir.
Auk þessara sjónvarpsþáttaraða er Sagafilm með fjöldann allan af íslensku efni í skrifum og þróun. Á vegum fyrirtækisins vinna nú 23 höfundar að skrifum, 12 konur og 11 karlar. Helmingur þessara framtíðarverkefna eru sögur um konur og með konur í aðalhlutverkum að sögn talsmanns fyrirtækisins.