Björk Guðmundsdóttir tónlistarkona segir að hún hafi orðið fyrir kynferðislegri áreitni af hálfu kvikmyndaleikstjóra þegar hún lék í mynd hans. Þetta kemur fram á Facebook síðu hennar og þó leikstjórinn sé ekki nafngreindur má ljóst vera að hún á við Lars von Trier sem leikstýrði henni í Dancer in the Dark. Von Trier hafnar ásökunum Bjarkar, sem og Peter Aalbæk Jensen framleiðandi hans.
„Það reyndist mér ákaflega erfitt þegar ég fetaði mig inn í atvinnugrein leikkonunnar að auðmýking mín og hlutgerving sem minniháttar kynferðislega áreitt vera væri normið og tekið sem gefið af leikstjóranum og tugum starfsmanna sem gerðu það kleift og hvöttu til þess,“ segir Björk í færslu sinni. Þar segist hún hafa ákveðið að segja sögu sína vegna þess innblástur sem konur hafi veitt henni með því að stíga fram og segja sögu sína. Þar vísar hún væntanlega til umræðunnar Harvey Weinstein, yfirmann Miramax-fyrirtækisins, sem rekinn var úr starfi eftir uppljóstranir og ásakanir um kynferðisbrot hans og áreitni í garð kvenna.
„Ég komst að því að það er algilt að leikstjóri geti snert og áreitt leikkonur sínar að vild og að kvikmyndaiðnaðurinn leyfir það. Þegar ég hafnaði leikstjóranum ítrekað fór hann í fýlu og refsaði mér á sama tíma og hann bjó til þá ímynd af mér fyrir tökuliðið að það væri ég sem væri erfið,“ skrifar Björk. Hún segir að það sem hafi gert sér kleift að andmæla leikstjóranum sé styrkur hennar, stuðningur sem hún naut af samstarfsfólki sínu og það að hún hefði ekki haft neinu að tapa þar sem metnaður hennar hefði ekki legið til þess að leika í kvikmyndum. „Ég sneri því baki við þessu og jafnaði mig á um það bil einu ári.“
Í annarri frétt RÚV er fjallað um viðbrögð von Trier og framleiðandans Peter Aalbæk Jensen:
Danski kvikmyndaleikstjórinn Lars von Trier segist ekki hafa áreitt Björk Guðmundsdóttur kynferðislega við tökur á kvikmyndinni Dancer in the Dark. „Við vorum svarnir óvinir – það er staðreynd. Og það leiddi til þess að hún sýndi eina bestu frammistöðu leikara í kvikmynd eftir mig,“ segir Von Trier.
Þetta kemur fram á vef Jyllands Posten.
Í gærkvöld hafnaði Peter Aalbæk, kvikmyndaframleiðandi og samstarfsmaður danska kvikmyndaleikstjórans Lars von Trier, þessum ásökunum Bjarkar og sagði hana hafa stjórnað öllu á tökustaðnum. Hann hefði drukkið heila viský-flösku á dag því hann hefði óttast að myndin yrði ekki að veruleika, meðal annars vegna framkomu Bjarkar.
Jyllands-Posten náði síðan tali af Lars von Trier í morgun þar sem hann hafnaði þessum ásökunum. Það væri þó ekkert leyndarmál að hann og Björk hefðu verið svarnir óvinir á tökustað en það hefði líka skilað sér „í bestu frammistöðu leikara í kvikmynd eftir mig“, segir Von Trier. Hann segir ásakanir Bjarkar ekki koma sér á óvart því hún hafi áður kvartað undan honum. „Það er ekkert í þessu máli. Farið bara og skoðið sögu myndarinnar. Það voru átök en ég gerði þetta ekki.“