Morgunblaðið um „Vetrarbræður“: Eitur í flösku

Rammi úr Vetrarbræðrum.

Vetrarbræður inniheldur eitthvert pönk, einhverja rödd, sem ég fagna að sé komin inn í íslenskt kvikmyndasamhengi,“ skrifar Brynja Hjálmsdóttir í Morgunblaðið um myndina. Hún gefur henni fjórar stjörnur.

Umsögn Brynju er svo:

Hornfirðingurinn, kvikmyndagerðarmaðurinn og myndlistarmaðurinn Hlynur Pálmason hefur á ferli sínum vakið athygli fyrir stuttmyndir sínar og ljósmyndir. Nú hefur fyrsta kvikmynd Hlyns í fullri lengd, Vetrarbræður, litið dagsins ljós.

Bakgrunnur hans í myndlist er augljós af skemmtilegri vísun í „Mountain“ eftir Sigurð Guðmundsson, sem birtist í upphafstitlum myndarinnar og veggspjöldum. Myndin hefur nú þegar hlotið bæði verðlaun og lofsamlega dóma á alþjóðlegum vettvangi.

Vetrarbræður gerist í verksmiðjubæ og hverfist um námuverkamenn í kísilnámu þar. Í upphafsatriðinu erum við stödd í niðamyrkri á botni námunnar, eina ljósuppsprettan eru luktirnar sem mennirnir bera á hjálmum sínum. Maður tengir strax við Dogma-hreyfinguna í atriðum sem þessum, þar sem einvörðungu er stuðst er við hráa og náttúrulega lýsingu (þó ég geri mér grein fyrir að það sé e.t.v. bara af því að myndin er dönsk). Það er í það minnsta ekki heiglum hent að átta sig á aðstæðum í þessu svartnætti, bæði fyrir áhorfendur og verkamennina. Þegar við komum upp úr námunni tekur mögnuð sviðsmynd við. Allt er snjóhvítt og atað í kísil, jafnt umhverfi verksmiðjunnar, bærinn, bílarnir og mennirnir sjálfir. Þetta spilar á skynjun manns með ókennilegum hætti; maður veit að allt og allir eru grútskítugir en skíturinn er hvítur sem skapar kraftmikla árekstra í heilabúinu sem ég get ekki fyllilega útskýrt.

Námuverkamennirnir eru kaldar og þunglamalegar persónur. Aðalhetjan okkar, Emil, stingur þó í stúf við hina í hópnum. Hann býr með bróður sínum en bróðirinn passar ágætlega inn í hópinn. Helsta dægrastytting Emils er að glápa inn um gluggann hjá stúlku sem hann er ástfanginn af en hann hefur aldrei dug til að tala við. Samfara störfum sínum í námunni bruggar Emil áfengan óþverra úr efnum sem hann stelur frá námunni. Hann selur afurðina svo kollegum sínum og það er nóg að gera í sprúttsölunni, enda lítið annað við að vera í þessari kaldranalegu veröld. Þegar einn dyggasti viðskiptavinur Emils veikist kvisast sá orðrómur að sprúttið hans sé eiturbras. Hann fellur í ónáð og í kjölfarið verður hegðun hans sífellt óútreiknanlegri.

Vetrarbræður er unnin af ríkri meðvitund um kvikmyndasöguna, hún gerist í verksmiðju, sem tengir hana við einhverja fyrstu kvikmynd sögunnar, Verkamenn yfirgefa verksmiðjuna (1895) eftir Lumiére-bræður. Helst sækir myndin þó í brunn rússneskrar fagurfræði. Það má setja hana í samband við verk Eisensteins á borð við Verkfall (1925) en þar er mikið unnið með málmkennda harðneskju verksmiðjuumhverfisins. Atriðin sem ekki gerast í verksmiðjunni kalla á tengingar við annan rússneskan meistara, Andrei Tarkovskí.

Þrátt fyrir innblástur úr ýmsum áttum er Vetrarbræður afar fersk. Sviðsmyndin er í raun stjarna myndarinnar, hún er feiknalega sterk og frábær kvikmyndataka Mariu von Hausswolff skilar henni til áhorfanda með glæsibrag. Teyminu tekst að skapa undarlega fegurð úr nístandi ljótleika. Frásagnaraðferðin í myndinni er óvenjuleg og nokkuð nýstárleg, ég minnist þess ekki að hafa séð svona handbragð áður. Myndin hefur miðlægan söguþráð en á milli atriða sem keyra þráðinn áfram koma eins konar brýr, eða hlé, sem samanstanda af draumasenum eða listrænum könnunarskotum. Það er eitthvert frískandi pönk í þessu.

Sérlegt hrós fær hljóðmyndin. Oft er mikill hávaði og persónur tala í gegnum vélargnýinn sem skapar sannfærandi og þrúgandi tilfinningu fyrir aðstæðum. Svo eru mörkin milli tónlistar og hljóðsins innan myndarinnar ekki alltaf ljós, þar sem tónlistin er unnin úr vélarhljóðum verksmiðjunnar. Tónlistin og lætin renna saman á einhvern hátt sem virkar fullkomlega og lyftir kvikmyndinni upp um margar hæðir. Það er m.a. vegna þess hvað það eru oft mikil læti, sem persónurnar tjá sig lítið með orðum og meira með athöfnum.

Heilmiklar upplýsingar um söguþráð og persónueinkenni eru hneppt í myndræna frásögn og ekki alltaf verið að tyggja allt ofan í mann. Þegar það koma hins vegar samtalsatriði er oftast ekki langt í húmorinn, sem er kærkomið svona inni á milli óhuggulegheitanna. Emil er sérlega hnyttin persóna og vert að hrósa Elliott Crosset Hove fyrir frammistöðu sína í hlutverkinu. Annar leikari sem sýnir meistaratakta er Lars Mikkelsen, en hann og Elliott eiga góðan samleik í klikkuðu atriði sem gerist á skrifstofu þess fyrrnefnda.

Myndin er tilraunakennd og mikill metnaður lagður í listrænu hliðina, sem er nú gjarnan einkenni á fyrstu verkum leikstjóra. Það er ekkert upp á það að klaga beinlínis en stundum sá maður merki þess að ákveðnar senur eða skot ættu ekki erindi í myndina. Manni dettur í hug að þeim hafi verið haldið inni bara vegna þess að þau eru falleg, líkt og höfundur hafi ekki fengið sig til að sleppa tökum á efninu, þótt myndin hefði e.t.v. verið betri fyrir vikið. Einnig verð ég að játa að ég varð vonsvikin með endi myndarinnar, eða réttara sagt skort þar á. Það er ekki einu sinni hægt að tala um að kvikmyndin hafi „opinn“ endi, hún endar í algjöru tómarúmi.

Þrátt fyrir mikla listræna leikgleði er Vetrarbræður að upplagi frásagnarmynd, með skýran söguþráð. Hefði myndin verið hreinræktuð drauma- eða tilraunamynd hefði það kannski afsakað svona stuttaralegan endi en hér eru áhorfendur, sem hafa gengið sögunni og persónum hennar á hönd, ofurlítið sviknir.

Vetrarbræður inniheldur eitthvert pönk, einhverja rödd, sem ég fagna að sé komin inn í íslenskt kvikmyndasamhengi og ég hlakka til að sjá verk eftir höfundinn á íslensku. Það er engum blöðum um það að fletta að Hlynur og teymi hans eru rísandi stjörnur.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR