Tom of Finland eftir Dome Karukoski hefur verið valin framlag Finna til Óskarsverðlaunanna. Ingvar Þórðarson og Sophie Mahlo, sem reka framleiðslufyrirtækið Neutrinos Productions í Berlín, eru meðframleiðendur myndarinnar. Þá semur Hildur Guðnadóttir tónlist myndarinnar og Þorsteinn Bachmann fer með eitt hlutverkanna.
Myndin byggir á ævi Touko Laaksonen, sem varð einn helsti íkon samkynhneigðra undir listamannsheitinu Tom of Finland. Hún hefst þegar hann snýr aftur til Helsinki eftir að hafa gegnt herþjónustu í seinni heimsstyrjöldinni. Þar var hann ofsóttur fyrir kynhneigð sína og neyddur til að giftast konu en uppgötvar síðan frelsi gegnum listsköpun, sér í lagi með teikningum af vöðvastæltum karlmönnum í djörfum stellingum. Verk hans urðu síðan kunn um veröld víða og urðu hluti af mannréttindabaráttu samkynhneigðra í Bandaríkjunum og víðar.
Aleksi Bardy, sem jafnframt skrifar handritið, Miia Haavisto og Annika Sucksdorff hjá Helsinki Film eru framleiðendur. Gunnar Carlsson hjá Anagram Väst í Svíþjóð og Miriam Nørgaard hjá Fridthjof Film í Danmörku eru meðframleiðendur ásamt Ingvari og Sophie í samvinnu við Mike Downey og Sam Taylor hjá Film and Music Entertainment (F&ME) í Bretlandi.