Kvikmyndarýnir Lestarinnar, Gunnar Theódór Eggertsson, telur Ég man þig vera frambærilega glæpasögu en reimleikarnir í myndinni nái þó aldrei almennilegu flugi.
Gunnar Theódór segir:
Ég man þig er ný íslensk kvikmynd í leikstjórn Óskars Þórs Axelssonar, sem skrifar jafnframt handritið ásamt Ottó Geir Borg, byggt á samnefndri skáldsögu Yrsu Sigurðardóttur. Ég man þig er yfirnáttúruleg glæpasaga sem tvinnar saman persónulegri frásögn um geðlækninn Frey og undarlegu morðmáli sem hann dregst inn í, að því er virðist fyrir tilviljun, þótt meira kunni að liggja þar að baki. Freyr var sjálfur hluti af frægu máli þegar sonur hans hvarf sporlaust nokkrum árum áður og þótt hann virðist hafa náð sáttum um að sonur hans sé látinn, þá fannst líkið aldrei og ráðgátan hvílir þung á herðum hans.
Þegar eldri kona finnst látin í kirkju fyrir vestan – og virðist hafa framið sjálfsvíg, fyrir utan fjölmörg grunsamleg ör á bakinu í formi krossa – hefst atburðarás sem færir Frey og lögreglukonuna Dagnýju á sextíu ára gamlar slóðir sem varða málefni ungs drengs og mögulegra hefndarglæpa tengdum skuggalegri baksögu hans. Sögusvið rannsakendanna er aðallega á Ísafirði, en samhliða þeirri sögu fylgjumst við með þremenningunum Garðari, Líf og Katrínu sem eru stödd á Hesteyri að gera upp gamalt hús og umbreyta í gistiheimili til að anna vaxandi ferðamannafjöldanum á Hornströndum. Þau eru alein í eyðiþorpinu og smátt og smátt taka undarlegir atburðir að eiga sér stað sem gefa til kynna að húsið gamla sé reimt. Myndin stekkur þannig á milli tveggja frásagna, annars vegar glæpamálsins á Ísafirði og hins vegar draugasögunnar á Hesteyri, og áhorfendur bíða spenntir að vita hvernig þær munu jafnt og þétt fara að tengjast.
Áhersla á krimmann
Áður en lengra er haldið er nauðsynlegt að taka fram að ég hef ekki lesið bókina sem myndin byggir á og er því þessi umfjöllun alfarið byggð á upplifun minni af kvikmyndinni sjálfri, óháð frumtextanum. Og miðað við umtalið sem ég hafði heyrt varð ég fyrir dálitilum vonbrigðum með Ég man þig, því hún náði aldrei almennilega að draga mig inn í hryllinginn eða andrúmsloftið. Mögulega var ég að einhverju leyti með rangar væntingar, hvað það varðar að ég hafði sett mig í stellingar fyrir hrollvekju, en Ég man þig, eins og ég kom að í upphafsorðunum, er frekar krimmi sem daðrar við draugasöguna, heldur en hreinræktuð hrollvekja. Vissulega eru yfirnáttúrulegir þættir til staðar, en uppbygging handritsins og tónninn minnti mig frekar á glæpasögu, enda er líklega best að hugsa um myndina sem blöndu af báðu, en þó með áhersluna frekar í átt til krimmans heldur en hrollsins.
Ég man þig er í raun mjög tvískipt kvikmynd, þar sem við fáum tvær samhliða sögur og stökkvum frá einni yfir í aðra, sem á til að drepa aðeins niður stemninguna, sérstaklega hvað varðar einangrunina á Hesteyri sem við missum tenginguna við þegar myndin færir okkur skyndilega yfir til Ísafjarðar eða Reykjavíkur og lengi framan af nær myndin ekki að skapa nógu mikla spennu í kringum sögurnar tvær, ekki síst vegna þess að hryllingssögur sem byggja á andrúmslofti þurfa að ná áhorfendum inn í ákveðna leiðslu og því er afar vandmeðfarið að ætla að brjóta frásagnarformið svona upp. Glæpasagan um Frey og Dagnýju hélt mér í raun mun sterkar heldur en draugasagan um vinina á eyðibýlinu, að ég held af nokkrum ástæðum.
Reimleikarnir ná ekki almennilegu flugi
Morðrannsóknarþráðurinn er meira grípandi, mun sterkari saga sem nær að kynda undir forvitni um leyndarmál fortíðarinnar, á meðan reimleikahúsið fær einfaldlega ekki nóg pláss til að virkilega ná að draga mann inn í sálfræðilega upplifun persónanna og leyfa okkur að tryllast með þeim. Þremenningarnir eru líka fremur líflausir karakterar og ég hefði þurft að kynnast þeim mun betur til að virkilega ná sambandi við dramað sem vex innan hópsins eftir því sem á líður. Ég get vel ímyndað mér að sú tenging komi skýrar fram í bókinni, en innan tvískiptrar uppbyggingar kvikmyndarinnar ná reimleikarnir aldrei almennilegu flugi og ég beið frekar nýjustu frétta frá gangi mála hinum megin við fjörðinn.
Það er líka gaman að fylgjast með rannsakendunum kafa dýpra ofan í fortíðina, þótt handritið keppist við að útskýra sem flest og passa upp á að allir séu örugglega með á nótunum, svo að stundum leið mér eins og öll dulúð væri fyrir bí, en flækjurnar verða áhugaverðari eftir því sem líður á seinni hlutann. Hryllingurinn sjálfur reiðir sig um of á drungalega hljóðmynd og tónlist sem heldur stöðugt í höndina á manni og ég saknaði þess að upplifa djúpstæðari hroll heldur en þann sem fylgir fólki að ráfa einsamalt um í myrkri innan um skugga og dularfull hljóð.
Kunnuleg og klassísk draugasaga
Draugasagan sjálf er jafnframt kunnugleg og klassísk og lagar sig að hefðum svipaðra draugasagna og mynda, varðandi hefnigjarnan anda, látin börn og tilfinningalega tengingu við aðalpersónu sem hefur gengið í gegnum svipaðan missi og þarf að horfast í augu við það í gegnum yfirnáttúrlega atburði, sem gefur hrollvekjunni hjartnæma dýpt. Mér varð hugsað til Don‘t Look Now eftir Nicolas Roeg, ekki síst vegna bláu úlpunnar sem einkennir týnda soninn og rímar vel við rauðu kápuna á hlaupum í þeirri mynd, eða gömlu The Changeling með George C. Scott, sem er líka blanda af morðmysteríu og gamaldags draugagangi, en einnig nýlegra mynda eins og hina spænsku El Orfanato eða áströlsku The Babadook, þar sem foreldri kljáist við sorg innan um reimleika og hrylling. Ég man þig stenst ekki samanburð við þessar myndir, en hefur samt sinn sjarma sem gamaldags draugasaga færð inn í „ScandiNoir“ stílinn og ég efast ekki um að margir glæpasagnaaðdáendur muni hafa gaman af þessum blendingi.
Sjálfur þjáist ég af rótgróinni hryllingsmyndafíkn og óhjákvæmilega er upplifun mín lituð af því að vildi láta hræða mig og vonaði að Ég man þig myndi ná að soga mig inn í lokkandi sviðsetninguna í eyðiþorpinu Hesteyri, ekki síst í ljósi þess að ég hef sjálfur týnst þar um slóðir og orðið skíthræddur í þokunni. Ég veit líka um fólk sem var alveg skíthrætt á myndinni – sem reyndar var jafnframt fólk sem leggur það ekki í vana sinn að horfa á hryllingsmyndir – og eflaust munu margir liggja andvaka eftir Ég man þig, eins og þeir fjölmörgu sem þurftu að taka sér hlé frá bókarlestrinum sökum ofsahræðslu, þótt myndin hafi ekki vakið upp nógu mikinn hroll hjá mér.
Sjá nánar hér: Ég man þig: Sterk glæpasaga en slappur hrollur | RÚV