[Stikla] Heimildamyndin „Línudans“ frumsýnd á Stockfish

Heimildamyndin Línudans eftir Ólaf Rögnvaldsson verður Íslandsfrumsýnd á Stockfish hátíðinni sem fram fer dagana 23. febrúar til 5. mars. Myndin, sem frumsýnd var á Lubeck hátíðinni s.l. haust, fjallar um baráttu bænda og landeigenda gegn lagningu Blöndulínu 3 sem Landsnet hyggst leggja frá Blönduvirkjun til Akureyrar, um Vatnsskarð, Skagafjörð, Öxnadalsheiði og Hörgárdal.

Ólafur stjórnar gerð myndarinnar, tekur og klippir. Ragnar Árni Ólafsson gerir tónlist, Ingvar Lundberg hjá Bíóhljóði sér um hljóðvinnslu. Grafík gera Ámundi Sigurðsson og Steinn Steinsson, Styrmir Sigurðsson gerir stiklu. Anna Th. Rögnvaldsdóttir og Steinþór Birgisson önnuðust handritsráðgjöf.

Í kynningu um myndina segir:

Þegar Landsnet sendi frá sér frummatsskýrslu um byggingu línunnar í mars 2012 kom hópur fólks saman í fjárhúsi í Skagafirði til að átta sig á umfangi verksins og ræða möguleg viðbrögð við því. Þar var bent á að línan ætti eftir að að skera tugi bújarða í sundur og myndi hafa neikvæð áhrif á lífsgæði og afkomu fjölda fólks. Þeir sem töldu sér ógnað kröfðust þess að tekið þyrfti tillit til náttúruverndarsjónarmiða og hagsmuna annara atvinnugreina með því að setja línuna í jörð, a.m.k. að hluta. Þetta telur Landsnet óhugsandi að gera vegna kostnaðar.

Myndin lýsir baráttunni frá sjónarhóli þeirra einstaklinga sem standa í fylkingarbrjósti. Hún er baráttusaga fólks sem á við ofurefli að etja gagnvart öflugu ríkisfyrirtæki sem hefur einkarétt á dreifingu rafmagns og er vant að fara sínu fram. Maðurinn, bóndinn á sinni torfu, í sínu ríki, er hér í dramatísku hlutverki – í eldlínu átaka sem enginn sér fyrir endann á.

Andstaðan sem hófst á í Skagafirði hefur nú breiðst út til nágrannasveitarfélaganna, eflst og styrkst. Jafnvel svo mikið að margir telja að andstaðan gegn Blöndulínu geti valdið straumhvörfum í baráttunni gegn ægivaldi orkufyrirtækja og áliðju. Árangurinn sýni sig m.a. í því að nú hafa verið sett ný lög um starfsemi Landsnets þar sem náttúruverndarsjónarmiðum er gert hærra undir höfði. Aðrir telja að lögin henti fyrirtækinu afar vel og dragi tennurnar úr báráttu umhverfissinna.

Til þess að af byggingu Blöndulínu 3 geti orðið þarf að sætta mörg sjónarmið – eða ryðja úr vegi ótal hindrunum. Flest bendir til þess að deilan harðni eftir því sem á líður og endi jafnvel fyrir dómstólum. Hversu lengi getur samstaðan haldið ef einstakir landeigendur fá gylliboð frá Landsneti? Hvaða vopnum ætlar Landsnet að beita næst til að ná sínu fram?

Víglínan hefur verið dregin en sagan kennir okkur að stórhuga áætlunum um línulagnir verður ekki breytt. Eða hvað? LÍNUDANS lýsir þessum mögnuðu átökum allt frá upphafi til dagsins í dag.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR