Ragnar Bragason í viðtali: Heimur kvenna er vannýttur

Hjónin Helga Rós Hannam búningahönnuður og Ragnar Bragason leikstjóri við tökur á Föngum. (Mynd: Lilja Jónsdóttir)

Stundin birti á dögunum ítarlegt viðtal við Ragnar Bragason leikstjóra þar sem hann fer yfir feril sinn, segir frá upprunanum, ræðir um Fanga og einnig framtíðarplön.

Hér er gripið niður í kaflann þar sem rætt er um Fanga. Ingibjörg Dögg Kjartansdóttir tekur viðtalið. Hlekk á allt viðtalið er að finna neðst.

Nú eru það Fangar. Sex þátta sjónvarpssería um konur í fangelsi sem var frumsýnd á nýársdag, sem byggir á heimsóknum þeirra Unnar Aspar Stefánsdóttur og Nínu Daggar Filippusdóttur í Kvennafangelsið í Kópavogi. Þær fóru að fara þangað af einskærum áhuga, eftir að hafa lesið grein um mæður í fangelsi, báðar nýbúnar að eignast sitt fyrsta barn og vildu leggja sitt af mörkum. „Þær tóku hins vegar svo mikið með sér úr þessum heimsóknum sem hreinlega öskraði á að það yrði eitthvað gert úr því. Ég talaði fyrst við þær árið 2008 þar sem þær sögðust vilja gera bíó eða sjónvarpsseríu úr þessu. Mér fannst það góð hugmynd, bæði af því að ég sá fyrir mér að þetta efni væri fóður í gott drama en líka vegna þess að þarna gat ég sagt sögur af konum. Íslensk kvikmyndagerð hefur því miður verið mjög karllæg í umfjöllunum og það er í algjörum minnihluta að konur séu í aðalhlutverki.“

Fyrir fimm árum ákvað hann að skipta um kúrs og segja sögur af heimi sem hefur verið illa nýttur í kvikmyndaformi hér á landi, það er að segja heimi kvenna. Ástæðan fyrir því að heimur kvenna er vannýttur er kannski sú að karlar stjórna heiminum, segir hann, og kvikmyndagerðarbransanum, hvort sem það er í Reykjavík eða Hollywood. Flestir höfundar og leikstjórar eru karlmenn sem skrifa um það sem þeir þekkja og hafa áhuga á. „Þegar höfundur sest niður og byrjar að kokka upp aðalkarakter þá er það yfirleitt framlenging af honum sjálfum,“ segir hann og bætir því að við að konur séu samt betri efniviður í drama. „Heimur kvenna er oft dramatískari. Konur eiga erfiðara uppdráttar og erfiðara með að sanna sig. Þær þurfa að hafa meira fyrir hlutunum. Af því að við búum í karllægum heimi sem hefur verið stjórnað af körlum og þeir hafa sett allar reglur og viðmið. Allt kerfið er hannað af körlum og út frá karllægum gildum.

Til að brjóta þetta upp hefur allt sem ég hef verið að gera undanfarin ár, eins og Málmhaus og leikritin mín, verið með stórar kvenpersónur. Nú er ég að taka það yfir í sjónvarp líka. Fyrir mig sem leikstjóra var einstakt að vera með hlaðborð af sterkum kvenpersónum.“

Serían er mjög umfangsmikil og hátt í hundrað leikarar fara með línur. Allt sem gerist í fangelsinu var tekið upp í gamla kvennafangelsinu í Kópavogi, þar sem aðeins einn karlleikari var að störfum, á móti þrettán konum. Einstaklega falleg orka myndaðist í tökum í fangelsinu og mikil samstaða myndaðist á milli leikkvenna, sem voru á öllum aldri, sumar nýútskrifaðar úr Listaháskólanum og aðrar komnar á áttræðisaldur. „Það var mjög gaman í vinnunni þessa mánuði. Þær brunnu fyrir efninu og vildu koma sögunni vel til skila. Þetta var ótrúlega fallegur tími þó að staðurinn beri með sér mikinn harm.“

Brá þegar hann sá aðstæðurnar

Áður hafði hann verið á Litla-Hrauni og rætt við fanga þar vegna Fangavaktarinnar. Hann bjó að þeirri reynslu þegar hann kom í kvennafangelsið en var illa brugðið. Þetta var gamalt hús, á þremur hæðum. Á efstu hæðinni voru klefar, á þeirri næstu voru klefar, lítið eldhús og stofa en í kjallaranum var heimsóknarherbergi, vinnuaðstaða í litlu rými og líkamsræktarstöð í einu herbergi. Þaðan var gengið út í garð, sem var eina útisvæði fanganna. Í þessu litla rými hírðust sumir fangarnir árum saman. „Það kom á óvart hvað aðbúnaðurinn og aðstæðurnar voru skelfilegar. Ég trúði því eiginlega ekki. Litla-Hraun er ekki góður staður að vera á en það er hátíð við hliðina á þessu. Það var allavega byggt sem fangelsi og þar var meira að gerast og meira pláss til að athafna sig. Þarna var ekkert svigrúm. Útisvæðið í Kópavogi var líka grín og síðan var byggður skjólveggur að kröfu samfélagsins, sem vildi ekki hafa fangana fyrir augum.“

Í næsta húsi var leikskóli og fyrir neðan fangelsið var almenningsgarður. „Mér fannst mikils virði að fá að mynda þetta á þessum stað þar sem konur hafa raunverulega búið við þessar aðstæður. Aðstæður sem voru ekki boðlegar. Þetta var ekki mannabústaður. Fólk talar stundum um að dæmdir glæpamenn eigi ekkert gott skilið en það er rugl. Þetta er fólk. Það fæðist enginn sem glæpamaður. Fólk endar í fangelsi, með einstaka undantekningum, vegna þess að umhverfi og aðstæður hafa leitt það á ranga braut. Þetta er fólk sem kerfið hefur klúðrað. Skólakerfið studdi það ekki, foreldarnir voru vanhæfir eða það ólst ekki upp við öryggi einhverra hluta vegna, fékk ekki ástúð eða gott atlæti, er að glíma við geðraskanir, ofvirkni og athyglisbrest eða alkóhólisma. Það er alltaf einhver rót að alvarlegum glæpum, hver sem hún er. Við getum ekki sópað því undir teppið og skilið þetta fólk eftir í aðstæðum þar sem það er látið þjást. Það er næg refsing að vera lokaður inni og geta ekki lifað sem frjáls einstaklingur. Það þarf ekki að láta fólk hírast í þriggja fermetra klefum sem eru ónýtir vegna myglu eða hvað það nú er.“

Vill hafa áhrif

Óréttlæti ætti að vera öllum hugleikið, sama hvar og hvernig það birtist, segir hann. „Einu sinni sagði mér gáfaðri maður að allar sögur ættu að fjalla um óréttlæti. Af því að það er óréttlætið sem þarf að leiðrétta. Þó að ég vilji ekki setjast í predikunarstól þá vonast ég alltaf til þess að geta haft áhrif til góðs. Ég vil segja sögur sem hafa áhrif, sögur sem fjalla um það hvernig fólk tekst á við sorg og erfiðleika, hvernig það finnur sér stað í samfélagi manna og höndlar lífið. Dramatískustu sögurnar eru um fólk sem höndlar það ekki vel. Kvikmyndir fjalla almennt ekki um fólk þar sem allt er í vellukkunarstandi og ekkert gerist. Ég vil frekar fá fólk til þess að hugsa aðeins um lífið og tilveruna en að skemmta því, sem ég geri með því að segja sögur sem brenna á mér og spretta frá réttum stað, stað sem er sannur en er ekki aðeins til þess fallinn að selja.

Ef ég er bara að framleiða sápu og loft finnst mér tíma mínum illa varið. Ég verð að brenna fyrir efninu til þess að halda út. Ekki það, ég ber virðingu fyrir fólki sem framleiðir efni sem á bara að skemmta fólki í tvo tíma því það er líka krydd í tilveruna og veitir vellíðan. En það var ekki ástæðan fyrir því að ég vildi verða höfundur.“

Draumurinn um að skrifa skáldsögu lifir enn. „Ég er komin með smá bakteríu fyrir því að skrifa skáldsögu, enga epík, byrja bara smátt og prófa mig áfram. Það er áskorun vegna þess að skáldsagan er ekki mitt form. Mig grunar að það sé næsta skref.“

Sjá viðtalið í heild hér: Skapar af ótta við dauðann – Stundin

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR