Vefur Kvikmyndamiðstöðvar hefur verið uppfærður og má skoða hér. Undir flokknum Styrkir má finna undirsíðu þar sem fjallað er um umsóknir í Kvikmyndasjóð. Þar er klausa með yfirskriftinni „Ójafnvægi í hlut kynja.“
Klausan hljóðar svo:
Í ljósi þess að á síðastliðnum árum hefur hlutfall kvenkyns umsækjenda verið töluvert lægra en hlutfall karlkyns umsækjenda hvetur KMÍ konur til að sækja í auknum mæli um styrki úr Kvikmyndasjóði.
Við mat á umsóknum lítur Kvikmyndasjóður til þess hvort styrkurinn stuðli að jöfnun á stöðu kvenna og karla í kvikmyndagerð.
Bæði kvenkyns og karlkyns umsækjendur eru ennfremur hvattir til að huga að jafnvægi milli kynja þegar skipað er í listrænar lykilstöður einstaka mynda og gæta þess að reynsluheimi bæði kvenna og karla séu gerð skil í þeim.
Bechdel prófið er hentugt vinnutæki til að glöggva sig á hlut kynja í einstaka verkefnum, en þar er lögð áhersla á þrjá þætti:
1. Að í myndinni séu a.m.k. tvær kvenpersónur með nafni,
2. að þær eigi samtal,
3. um eitthvað annað en karlmenn.
Í Samkomulagi um stefnumörkun fyrir íslenska kvikmyndagerð árin 2016-2019 er sérstaklega tekið á þessu máli undir lið 2.4:
Sett er það markmið að jafna hlut kynjanna í kvikmyndagerð með því að tryggja jafnt styrkhlutfall úr Kvikmyndasjóði til handritshöfunda, leikstjóra og framleiðenda. Í því skyni verði veittir tímabundnir sérstakir handrita- , þróunar- og framleiðslustyrkir til kvenna. Jafnframt er sett það markmið að jafna hlut kynjanna í öðrum listrænum stöðum í kvikmyndagerð, svo sem stjórn kvikmyndatöku, búningahöfunda, leikmyndahönnuða, tónskálda, hljóðhönnuða og klippara. Kvikmyndamiðstöð skal vinna að gerð matskerfis á grundvelli þessa á samningstímanum í samráði við Kvikmyndaráð.
Sjá nánar hér: Umsóknir í Kvikmyndasjóð | Kvikmyndamiðstöð Íslands