Samkvæmt bráðabirgðatölum frá RÚV var meðaláhorf á lokaþátt Fanga um 50%. RÚV gerir ráð fyrir að heildaráhorf verði í kringum 60% þegar hliðrað áhorf (Frelsi og Sarpur) liggur fyrir. Þættirnir eru aðgengilegir á Sarpinum til og með 7. mars næstkomandi.
Í frétt á vef RÚV segir ennfremur:
Umsagnir gagnrýnenda um Fanga hafa flestar verið mjög lofsamlegar og er leikurunum sérstaklega hrósað. Í dómi sínum í Herðubreið segir ritstjórinn, Karl Th. Birgisson, að Fangar sé besta sjónvarpsþáttaröð sem framleidd hefur verið á Íslandi, hvorki meira né minna. Guðmundur Andri Thorsson fjallar um Fanga í pistli sínum í Fréttablaðinu í dag og segist ekki muna eftir því að hafa séð jafngóðan leik í íslensku sjónvarpsefni. Kolbrún Bergþórsdóttir tekur í svipaðan streng í DV, þar sem hún talar um „sigur leikkvenna“, sem gefa allt í hlutverk sín og skapa einkar minnisstæðar persónur. Jón Viðar Jónsson er sammála því að leikurinn hafi verið góður en varð þó fyrir vonbrigðum með lokaþáttinn sem hann telur að hafi endað í „melódramatískum klisjum og happaendi af ódýrari sortinni.“
Samkvæmt samningum RÚV við höfunda þáttarins, verða þeir allir aðgengilegir til áhorfs á vef RÚV í 30 daga frá útsendingu síðasta þáttarins. Þeir sem misstu af eða kjósa að gleypa þáttaraðir í sig í heilu lagi, hafa því til 7. mars til að horfa á Fanga.
Sjá nánar hér: Helmingur þjóðarinnar horfði á lokaþáttinn