„Hjartasteinn“ verðlaunuð í Tromsö

Hjartasteinn Guðmundar Arnars Guðmundssonar, hlaut Don Kíkóta verðlaunin sem FICC (International Federation of Film Societies) samtökin veittu á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Tromsø í Noregi sem lauk 22. janúar. Guðmundur Arnar var viðstaddur hátíðina og veitti verðlaununum viðtöku.

Á heimasíðu Tromsø hátíðarinnar er að finna lista yfir verðlaunahafa.

Ásókn gesta hátíðarinnar í að sjá Hjartastein var slík að aðstandendur þurftu að bæta við tveimur aukasýningum og sýna hana í þremur sölum samtímis í báðum tilfellum.

Hjartasteinn var frumsýnd hérlendis 13. janúar og hefur hlotið lofsamlega dóma og góða aðsókn. Eftir aðra sýningarhelgi hafa um 10.000 manns séð myndina í kvikmyndahúsum.

Næst á dagskrá fyrir Hjartastein er þátttaka í keppninni um Drekaverðlaunin (Dragon Award) fyrir bestu norrænu kvikmynd á kvikmyndahátíðinni í Gautaborg. Hjartasteinn er ein af átta norrænum myndum sem keppa um þessi eftirsóttu verðlaun, en verðlaunaféð er 1 milljón sænskra króna og er það ein hæsta upphæð sem hægt er að vinna til á kvikmyndahátíðum heimsins.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR