Lestin á RÚV um „Hjartastein“: Saga sögð af miklu næmi

Gunnar Theódór Eggertsson fjallar um Hjartastein Guðmundar Arnars Guðmundssonar í Lestinni á Rás 1 og segir hana allt í senn einlæga, næma og opinskáa.

Umsögn Gunnars er sem hér segir:

Víðförul og verðlaunuð

Kvikmyndin Hjartasteinn er frumraun leikstjórans Guðmundar Arnars Guðmundssonar í fullri lengd, en hann hefur áður sent frá sér stuttmyndirnar Hvalfjörð og Ártún. Hjartasteinn hefur notið mikillar velgengni á hátíðum úti í heimi, hlaut meðal annars gagnrýnendaverðlaun FIPRESCI í Kiev, sérstök dómnefndarverðlaun á Thessaloniki-hátíðinni og bestu leikstjórn í Varsjá. Enn fremur hefur myndin fengið verðlaun vegna framsetningar og umfjöllunar um málefni og reynsluheim samkynhneigðra og LBGTQ+ samfélagsins, en þar ber að nefna Hinsegin-ljónið í Feneyjum og Q Hugo verðlaunin í Chicago. Af þessum ástæðum hefur Hjartasteinn dúkkað upp í kvikmyndafréttum reglulega síðustu mánuði og sjaldan sem við sem áhorfendur fáum að heyra svo mikið rætt um íslenska mynd áður en við fáum tækifæri til að sjá hana sjálf. Kvikmyndin kemur því heim til Íslands með heilmiklar væntingar í farteskinu og miðað við góða aðsókn síðustu daga er augljóst að Íslendingar hafa beðið Hjartasteins með töluverðri eftirvæntingu.

Opinská þroskasaga

Myndin er uppvaxtarsaga nokkurra unglinga í ónefndu sjávarþorpi á Íslandi og þá sérstaklega perluvinanna Kristjáns og Þórs. Þeir tengjast sterkum vináttuböndum sem reynir á þegar ungmennin byrja að hugsa um ástir, kynlíf og kynhneigð. Þeir eru ekki einir um það – hinir unglingarnir í þorpinu eru teknir að vakna til vitundar um kynverundina, þeirra á meðal vinkonurnar Beta og Hanna, sem vilja kynnast félögunum betur og eru ekki síður forvitnar að hefja rannsóknir á vegum ástarinnar. Kvikmyndin hverfist öll í kringum þessar fjórar aðalpersónur, þó með öllu meiri áherslu á samband strákanna, og býður áhorfendum að ganga í gegnum flóknar og erfiðar breytingar með þeim, á afar einlægan og fallega opinskáan hátt.

Hlýðum á stutt brot:

Þarna heyrðum við vinina Þór og Kristján drepa tímann á fögrum sumardegi í þorpinu þeirra þar sem þeim virðist stundum dauðleiðast. Snemma í myndinni sjáum við hitt og þetta sem ungmennin taka sér fyrir hendur til að láta dagana líða, allt frá því að rústa bílhræjum á ruslahaug með miklum látum og ofbeldi, yfir í að sitja þöglir úti á tröppum og skyrpa saman svo úr verði veglegur hrákapollur. Í brotinu heyrðum við þá enn fremur ræða líkamsleifar af fuglum sem þeir finna hangandi utan á einum bílnum: afskorna fuglafætur bundna við snæri sem Kristján túlkar sem svo að fuglarnir hafi þurft að naga þá af sér til að sleppa lausir úr gildrunni. Senan er látlaus og einföld, en hluti af víðara kerfi myndmáls tengt mönnum og dýrum í myndinni, sem tengist oftar en ekki misþyrmingu og ofbeldi gegn dýrunum. Hér virðist táknfræðin nokkuð skýr: til að sleppa út úr búrinu sem getur myndast í kringum okkur mannfólkið þarf stundum að grípa til erfiðra aðgerða, jafnvel að naga af sér fæturna.

Það er mikið um hræ og dauð dýr í Hjartasteini, sem er að vissu leyti að vænta í ljósi sviðsetningarinnar: auðvitað munum við sjá dýradráp í sveitamynd, en það er merki um sterk tök leikstjórans á myndmálinu að hann virðist nýta hverja slíka senu á einhvern hátt til að endurspegla söguefnið og jafnvel gefa vísbendingar um það sem koma skal. Strax í upphafssenu Hjartasteins er tónninn settur þegar hópur drengja æsist allur upp við fiskveiðar úti á bryggju, þar til að marhnútur bítur óvænt á hjá þeim og þeir bregðast hinir verstu við óboðna gestinum. Fordómar og skilningsleysi gagnvart þeim sem teljast öðruvísi er þannig fært í skýran myndrænan búning og leikstjórinn mun vísa aftur til grey marhnútsins áður en yfir lýkur.

Sjónarhorn unglinga

Það eru svona smáatriði sem gæða veröld Hjartasteins lífi og færa áhorfendur inn í ákveðna og mjög skýra sýn á annars kunnuglegt umhverfi. Leikstjórinn hefur lýst því yfir að hann hafi sótt innblástur í eigin æskuár í litlu þorpi, þar sem yngri kynslóðin á staðnum lifði og hrærðist í sínum heimi, sem var til staðar samhliða veröld hinna fullorðnu, þótt fáir utanaðkomandi gætu borið kennsl á hann. En í Hjartasteini varpar leikstjórinn þessum heimi upp á hvíta tjaldið og vinnur markvisst með hann í gegnum aðalpersónurnar, efniviðinn og ekki síst sjónarhornið, þar sem fókusinn er alfarið á veraldarsýn ungmennana og fullorðna fólkið er fyrst og fremst aukaleikarar. Fyrir unglingunum er þeirra eigin tilvist miðja alls, þau lifa í núinu, í sínu eigin míkró-samfélagi, og leikstjóranum tekst svo vel til við sviðsetninguna að áhorfendur geta ekki annað en sogast inn í hana og hrifist með.

Stórkostlegur leikur

Söguþráðurinn er í eðli sínu afar einfaldur og snýst myndin því frekar um andrúmsloft, stemningu og persónusköpun, þótt vissulega sé drama til staðar líka. Í uppvaxtarsögu skiptir öllu máli að við náum að tengjast aðalpersónunum og þar skín myndin líka alveg stjörnubjört. Mikið hefur verið gert úr hæfileikum aðalleikaranna og ekki að ástæðulausu. Félagarnir tveir, leiknir af Blæ Hinrikssyni og Baldri Einarssyni, eru stórkostlegir í aðalhlutverkunum, ná bæði að fanga stöðugleikann sem fylgir náinni vináttu og óvissuna sem fylgir því að taka þessi fyrstu skref yfir í nýjan veruleika, þegar ástin og löngunin bætist ofan á vinskapinn. Og þótt vinkonurnar tvær, leiknar af Diljá Valsdóttur og Kötlu Njálsdóttur, fái minna pláss á skjánum, eru þær einnig stórgóðar í hlutverkum sem eru nokkuð bitastæð og það er vert að minnast á það vegna þess að venjan hefur frekar verið í svokölluðum “strákamyndum” að kvenhlutverkin virki hálfkláruð, en í túlkun Diljár og Kötlu verða Beta og Hanna sannarlega heilsteyptar persónur og gætu rétt eins verið aðalpersónur í sinni eigin mynd. Það sama má segja um tvær eldri systur Þórs, sem eru kannski fyrst og fremst til staðar til að stríða litla unglingnum og gera lítið úr kynverund hans, en virka samt eins og meira en bara frásagnartól: þær eru áhugaverðar týpur og gera mikið fyrir allar senur sem þær fá hlutdeild að.

Staðleysa

Myndin er listilega skotin af Sturlu Brandth Grøvlen, sem skaut einnig Hrútana hans Gríms Hákonarsonar, og þótt landslagið leiki vissulega sitt hlutverk, þá fær maður aldrei á tilfinninguna að verið sé að troða inn landkynningu, heldur er unnið smekklega með það, eins og flest annað í myndinni, og persónurnar frekar í fyrirrúmi. Útlit myndarinnar er líka áhugavert og að vissu leyti nokkuð tímalaust; krakkarnir hlusta á Sykurmolana á vínylplötum en dansa svo við “Nasty Boy” með Trabant; enginn er með farsíma en dónakarlinn í bænum sækir sér klám á tölvuna; fatastíll og orðbragð virðist að sama skapi vera í dálítið frjálsu flæði. Ég skynja myndina sem svo að hún eigi sér stað uppúr miðjum tíunda áratugnum, en það skiptir svo sem ekki öllu máli, því tilfinningin um staðleysuna þjónar sögunni vel (þetta væri t.d. allt önnur mynd ef allir unglingarnir væru vopnaðir farsímum) og gefur henni sérstakan blæ fyrir vikið.

Áþreifanleg spenna

En fyrir utan að vera áhugaverð og innblásin sýn á sjónarhorn unglinga á uppvaxtarárum sínum í litlu þorpi úti á landi, þá er Hjartasteinn þó fyrst og fremst ástarsaga, eða öllu heldur nokkrar ástarsögur: þar má finna hefðbundnar sögur um æskuástir á milli stúlkna og drengja, en þungamiðjan liggur í ástarsambandinu, eða kannski heldur lönguninni til ástarsambands, á milli drengjanna tveggja. Spennan dormar undir yfirborðinu nánast alveg út í gegn, jafnt andleg spenna sem líkamleg, í ástarsögu sem þarf að vera hulin og undir rós, því óttinn við höfnun og jafnvel útskúfun kemur í veg fyrir að persónurnar geti fært nokkuð í orð, hvað þá í verk. Þessi naumhyggja í ástarsögunni, allar þagnirnar, öll merkingarþrungnu smáatriðin, gera upplifunina þeim mun sterkari, og eftir á að hyggja minnti Hjartasteinn mig að vissu leyti á aðra, nýlega samkynhneigða ástarsögu; Carol eftir Todd Haynes, eina af uppáhaldsmyndum mínum árið 2015, þar sem farið er jafnframt leynt með forðboðna ást og kynferðislega löngun, og spennan á milli aðalpersónanna verður nánast áþreifanleg fyrir vikið. Í Hjartasteini eru áhrifamestu atriðin þau sem eiga sér stað myndrænt og án tungumáls og minnsta líkamlega snerting verður sterkari en nokkur hefðbundin ástarsena; s.s. þegar strákarnir sitja þétt saman fyrir málverki eða þegar faðmlag eftir háskaför niður kletta rífur upp tilfinningagáttina.

Einlæg og næm

Guðmundur Arnar nær þannig alfarið að forðast að falla ofan í melódrama, þótt söguefnið bjóði sannarlega upp á það, og hann leyfir tilfinningum að smitast til áhorfenda í gegnum leikinn og þann lágstemmda og eðlilega tón sem einkennir myndina, í stað þess að hamra dramanu ofan í okkur. Það er auðvitað margt afar kunnuglegt við efnið og sviðsetninguna; sveitalífið, uppvaxtarsagan, alkóhólisminn, unglingadramað, og auðvelt væri að ímynda sér sömu mynd stútfulla af þreyttum klisjum, en Hjartasteinn yfirstígur allar slíkar gildrur, einmitt vegna þess að hún er svo einlæg í framsetningunni á efninu. Handritið er vel unnið, samtölin eðlileg og sannfærandi, sem gerir að verkum að persónurnar verða eðlilegar og sannfærandi, og ég naut návistarinnar við þær. Eitthvað hefur verið minnst á að Hjartasteinn sé nú í allra lengsta lagi miðað við efnistökin (hún er vel rúmir tveir tímar að lengd) og vissulega spottar inni á milli þar sem lítið gerist. Ég játa alveg að mér leist ekkert á lengdina þegar ég sá mínúturnar á prenti, en eftir því sem þær síðan tóku að líða fann ég aldrei fyrir lengdinni og hefði auðveldlega getað eytt meiri tíma með krökkunum á skjánum.

Hjartasteinn er í raun ágætis áminning um að þótt búið sé að segja sömu sögurnar ótal sinnum, þá er alltaf pláss fyrir fleiri túlkanir, svo fremi sem þær séu jafnvel unnar og sagðar af sömu næmni og hér, og óneitanlega er tilhlökkunarefni að sjá hvað leikstjórinn Guðmundur Arnar mun taka sér fyrir hendur í framtíðinni.

Sjá nánar hér: Saga sögð af miklu næmi

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR