Margrét Örnólfsdóttir, handritshöfundur og tónlistarmaður hefur hlotið hvatningarverðlaun WIFT, en Klapptré skýrði frá því fyrir skömmu að Hrafnhildur Gunnarsdóttir hefði hlotið heiðursverðlaun WIFT. Verðlaun eru nú veitt í fyrsta sinn í tilefni af tíu ára afmæli samtakanna.
Margrét hefur skrifað handrit að kvikmyndum og leiknu sjónvarpsefni, leikverk og skáldsögur og samið tónlist fyrir kvikmyndir, sjónvarp og leikhús. Hún var hljómborðsleikari í hljómsveitinni Sykurmolarnir 1988–1992.
Margrét er mjög virk á sínu sviði sem handritahöfundur og er framlag hennar til kvikmynda og sjónvarps á Íslandi gríðarlega mikilvægt. Ennfremur er Margrét mikilvæg fyrirmynd fyrir aðrar konur í greininni, fyrir bæði verðandi og núverandi handritahöfunda. WIFT fagnar því að sjá jafn öfluga konu taka svo virkan þátt í að móta persónur og sögur fyrir íslenska áhorfendur og komandi kynslóðir og hvetur Margréti áfram á sömu braut.