Minning | Páll Steingrímsson 1930-2016

Páll Steingrímsson og Erna Sóley dóttir mín á Vestmannaeyjaflugvelli 30. desember 2006. Hann hafði boðið okkur feðginum til Eyja að skoða kvikmynd sína Ginklofinn. Úr varð heljarinnar Eyjapartí.
Páll Steingrímsson og Erna Sóley dóttir mín á Vestmannaeyjaflugvelli 30. desember 2006. Hann hafði boðið okkur feðginum til Eyja að skoða kvikmynd sína Ginklofinn. Úr varð heljarinnar Eyjapartí.

Páll Steingrímsson, góður kunningi og kollegi er fallinn frá, 86 ára að aldri. Þegar hann hlaut heiðursverðlaun Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar 2004 fyrir framlag sitt til íslenskrar kvikmyndagerðar, skrifaði ég eftirfarandi grein.

Páll Steingrímsson er fæddur í Vestmannaeyjum árið 1930, en þar stofnaði hann og rak myndlistarskóla í mörg ár áður en hann hóf kvikmyndanám. Páll var einn af stofnendum Félags kvikmyndagerðarmanna árið 1966 og formaður þess um tíma.

Hann lauk prófi frá Kennaraskóla Íslands 1951 og síðar nam hann bókmenntir og líffræði við Kennaraháskólann í Kaupmannahöfn, auk þess sem hann lagði stund á myndlistarnám við Konunglegu dönsku myndlistarakademíuna. Um jólin 1972 útskrifaðist hann frá kvikmyndadeild New York University, þá kominn vel yfir fertugt.

Í upphafi árs 1973 stofnaði hann Kvik sf. ásamt Ernst Kettler og Ásgeiri Long. Þeir félagarnir höfðu aðeins unnið saman í fáeina daga þegar Heimaey tekur upp á því að gjósa eftir 5000 ára hlé. Erlend fréttastofa fékk þá til að mynda gosið og eftirlét þeim síðan allt efni sem ekki fór í útsendingu. Úr þessum afgöngum bjuggu þeir til heimildarmyndina “Eldeyjan” (“Days of Destruction”), sem síðar sama ár hlaut gullverðlaun í keppni 170 heimildarmynda á kvikmyndahátíð- inni í Atlanta í Bandaríkjunum. Stuttu síðar fékk hún einnig verðlaun í kvikmyndaborginni Hollywood.

Eftir þessa bröttu innkomu Páls í kvikmyndagerðina hélt hann áfram rekstri Kvik ásamt samstarfsmönnum sínum og varð fyrirtækið umfangsmikið á sviði auglýsingamynda fyrir sjónvarp á áttunda áratugnum og fram á þann níunda. Jafnframt þessu lagði Páll áherslu á gerð heimildarmynda með áherslu á náttúru, dýralíf og umhverfi auk fræðslumynda fyrir ýmsa opinbera aðila.

Frá miðjum níunda áratugnum hefur Páll að mestu einbeitt sér að gerð heimildarmynda um fyrrgreind efni. Alls fylla myndir hans rúmlega hálft hundrað og hafa margar þeirra verið verðlaunaðar og sýndar um veröld víða.

Meðal helstu mynda hans auk “Eldeyjunnar” má nefna “Hvalakyn og hvalveiðar við Ísland” (1988) þar sem fjallað er um viðfangsefnið frá sjónarhóli sögu og vísinda; “Oddaflug” (1993), um fimm tegundir gæsa sem eiga haust- og vordvöl á Íslandi; “Nábúar, æður og maður” (1995), um samskipti æðarfugla og manna og hvernig báðir hafa hag af; “Litli bróðir í norðri” (1996), um lífshlaup lundans og samskipti hans við manninn fyrr og nú; “Ísaldarhesturinn” (2001), um einangrun og þróun íslenska hestsins og “Öræfakyrrð” (“World of Solitude” – 2004), um virkjanaframkvæmdirnar við Kárahnjúka og áhrif þeirra á náttúruna.

Hina síðastnefndu gerði hann í samvinnu við Magnús Magnússon sjónvarpsmann og annan heiðursverðlaunahafa Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar. Myndin er jafnframt tilnefnd til Edduverðlauna í flokki heimildarmynda í ár.

Önnur forvitnileg mynd í sarpi Páls er sjónvarpsmyndin “Sesselja” (1983), sem hann framleiddi og myndaði. Sesselja byggði á handriti Agnars Þórðarsonar og var leikstýrt af Helga Skúlasyni. Með aðalhlutverk fóru Helga Bachman og Þorsteinn Gunnarsson. Myndin var sýnd í Sjónvarpinu sem og á ríkisstöðvum á Norðurlöndum á sínum tíma.

Hinn síungi Páll Steingrímsson er enn í fullu fjöri í kvikmyndagerðinni og vinnur um þessar mundir að heimildarmynd um Jóhannes Kjarval.

Árið 1997 birti Land & synir (nr. 8, jan.-feb.) ítarlegt viðtal Erlends Sveinssonar við Pál. Í upphafi viðtalsins dregur Erlendur upp eftirminnilega lýsingu á manninum með myndavélina:

“Þegar Páli Steingrímssyni gafst í fyrsta skiptið kostur á að kynna heimildarmyndir eftir sig á erlendri grund, sem var í Amsterdam í desembermánuði árið 1993, greip hann til þess ísmeygilega ráðs að mæta í salinn með úttroðna öskju af æðardúni.

Askja þessi var ekki stærri en svo að hann gat haft hana í buxnavasanum, þangað til röðin var komin að honum. Hann hafði fáeinar mínútur til ráðstöfunar til þess að fanga athygli dagskrárstjóranna, sem sátu bakvið langborð í öðrum enda salarins í einhvers konar rannsóknarréttarstellingum.

Hann byrjaði á að tala í tvær mínútur en síðan greip hann til öskjunnar. Mennirnir við langborðið störðu á þennan silfurhærða Íslending, ættaðan úr Vestmannaeyjum, handfjatla öskjuna, opna hana síðan en við það byrjaði æðardúnninn að þenjast út. Þanið var svo mikið að seinast hvarf Páll sjónum jöfranna á bak við brúskinn. Fólki í salnum var skemmt og bros færðist yfir andlit stórlaxanna. Galdurinn virkaði.

Þetta var fyrri þáttur af tveimur og lýsir tiltekið Páli betur en flest annað. Hann hafði auk þess mætt til leiks með uppstoppað geysifallegt æðarfuglapar undir grænum silkidúk og lyfti nú dúknum varlega ofan af fuglunum og kom þá þessi yndislega mynd í ljós.

Að þessari kynningu lokinni tókust forsölur á mynd Páls um æðarfuglana. Hann var þarna 10. desember og 30. desember var hann búinn að fá peninga í vasann frá aðilum sem tóku ákvörðun um að kaupa myndina fyrirfram. Það líða ekki nema tvær eða þrjár vikur þangað til hann er búinn að fá peninga til að spila úr.

“Ég hafði þá aldrei haft peninga til að gera mynd” segir Páll. “Ég hef alltaf ráðist í mínar myndir upp á von og óvon og það venjulega af því að mig hefur langað svo mikið að gera þær. Og þá hefur enginn hlutur almennilega getað stöðvað mig. Þau verk sem ég hef ráðist í hafa verið á mínu áhugasviði, oft hef ég kostað miklu til en aldrei spurt að leikslokum.”

(Birtist í 41. hefti Lands & sona).

Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson
Ásgrímur Sverrisson er kvikmyndagerðarmaður og ritstjóri Klapptrés.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR