Kvikmyndaráð fagnar því að samkomulag hafi náðst um íslenska kvikmyndagerð fyrir árin 2016 – 2019. Sameiginlegt markmið þeirra sem koma að þessu samkomulagi er að hér á landi séu gerðar kvikmyndir, heimildamyndir og sjónvarpsefni sem spegla okkar samfélag, gætt sé að jafnréttissjónarmiðum og forgangsraðað í þágu barnamenningar.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kvikmyndaráði. Þar segir ennfremur:
Framleiðslukostnaður einstakra verkefna er miklu lægri hér á landi en t.d. á Norðurlöndunum. Þrátt fyrir það eru íslenskar kvikmyndir að standa sig fyllilega í samkeppni við annarra þjóða verk. Það liggur því í hlutarins eðli að til að halda sjó og tryggja að hér séu sagðar sögur af okkar samfélagi, þarf að treysta innviði greinarinnar, stuðla að því að kjör starfsmanna verði sambærileg við samninga í öðrum löndum og hægt verði að fjárfesta meira í þróun og handritum. Halda þarf áfram að skoða hvernig aðlaga þarf opinberan stuðning í ljósi þess að tekjustofnar í greininni hafa gjörbreyst og minnkað, bæta þarf stuðning til kvikmyndahátíða, vinna að stöðugleika kvikmyndamenntunar og taka þátt í endurskoðun laga um kvikmyndagerð. Þá verður spennandi að fylgjast með áhrifum að aukinni aðkomu RÚV með nýju fyrirkomulagi RÚV mynda ehf.