Bandaríki tilfinninganna: spjall við pólska leikstjórann Tomasz Wasilewski

Tomasz Wasilewski. (Mynd: Marcin Oliva Soto)
Tomasz Wasilewski. (Mynd: Marcin Oliva Soto)

Í tilefni þess að pólska kvikmyndin United States of Love verður sýnd á RIFF, endurbirtum við viðtal Ásgeirs H. Ingólfssonar við leikstjórann Tomasz Wasilewski sem tekið var á Berlínarhátíðinni síðustu þar sem myndin hlaut verðlaun fyrir besta handritið (viðtalið birtist upphaflega þann 10. mars s.l.).

„Þetta var einn af þessum skelfilegu dögum, ég beið á ljósunum og hugsaði um lífið, fannst það sem ég var að ganga í gegnum það mikilvægasta í heimi – og svo sný ég mér við og sé konu í bílnum við hliðina á mér, og ég áttaði mig á ég hafði ekki hugmynd um hvað hún var að kljást við,“ segir Tomasz Wasilewski þegar hann rifjar upp frjókornið sem núna er orðið að nýjustu bíómyndinni hans, Bandaríki ástarinnar (Zjednoczone stany milosci), en hann átti eftir að vinna silfurbjörninn fyrir besta handritið á Berlinale örfáum klukkutímum eftir spjallið. „Ég vildi byggja heim í kringum einmitt þessar aðstæður, sem eru svo algengar í raunveruleikanum. Við höfum oftast engan aðgang að öðrum manneskjum. Við þekkjum fólk, líf okkar blandast saman við önnur líf, en staðreyndin er að oftast vitum við ekkert um þessi líf.“

Bandaríki ástarinnar fjallar um fjórar konur sem allar eru þjakaðar af ástleysi og sambandsleysi í Póllandi árið 1990, árið eftir að múrin féll. Síðasta mynd Wasilewski, Fljótandi skýjakljúfar (Plynace wiezowce), fjallaði um forboðnar ástir tveggja karlmanna – en það var utanför pabba hans að þakka að konur eru í aðalhlutverkum í þessari mynd.

„Ég man þennan tíma frá sjónarhóli kvenna. Ég var níu ára og kommúnisminn var fallinn og faðir minn fór til New York að vinna í tvö ár. Rétt eins og eiginmaður einnar aðalpersónunnar, eiginmaður fegurðardrottningarinnar. Ég veit ekki hvort þú manst eftir senunni þar sem þau horfa á vídjóspóluna – það var pabbi sjálfur, þetta er raunverulegt vídjó sem hann tók upp fyrir okkur í New York, að undanskyldu kláminu samt – það var ég sem bætti kláminu við,“ segir hann glottandi.

„En þegar hann fór varð ég eftir með mömmu og eldri systur minni og var umkringdur þeim og vinkonum þeirra. Þannig að ég sá þessi breytingaár með augum kvenna og þess vegna valdi ég konur sem aðalpersónur, því það er það sem ég man frá þessum tíma.“

En þrátt fyrir pólitískt byltingarskeið lítur hann ekki á þetta sem pólitíska mynd. „þegar ég geri bíómynd þá vel ég ekki pólitísk viðfangsefni, það er bara ekki minn stíll. Ég vildi gera þessa mynd út frá minninu. Ég var níu ára og var því of lítill til að skynja pólitíska strauma, þannig að það kom mjög eðlilega að einbeita mér að tilfinningalífi þessara kvenna. Og þetta gæti allt gerst í dag, ég held að tilfinnigalega gæti þessi mynd gerst núna rétt eins og fyrir hundrað árum. Það sem breytist er valið. Ég held að valkostirnir árið 1990 hafi verið allt öðruvísi en núna. Ég man þegar ég var sextán ára [sjö árum eftir að  myndin gerist] og hitti í fyrsta skipti skilnaðarbarn. Ég var að verða fullorðin þarna, þetta tíðkaðist einfaldlega ekki … umhverfið og hefðirnar þýddu að valið, að skilja, taka sénsinn, það var varla til staðar … ég er ekki að segja að Agata hefði endilega skilið, en ef það var það sem hún vildi, þá hefði það verið miklu erfiðara þá en núna.“

united states of loveMyndavélin í höfðinu

Rúmenski tökumaðurinn Oleg Mutu vakti heimsathygli með nokkrum þekktustu myndum rúmensku nýbylgjunnar, eins og til dæmis 4 mánuðir, 3 vikur og 2 dagar og Dauði Hr. Lazarescu, og hann myndaði Bandaríki ástarinnar líka. „Mig dreymdi alltaf að vinna með Oleg. Mörgum árum áður en ég byrjaði að leikstýra sjálfur sá ég 4-3-2 … ég gekk út úr bíóinu í sjokki og lofaði sjálfum mér því að dag einn myndi ég vinna með honum. Svo fékk ég númerið hjá honum þegar ég var að undirbúa gerð þessarar myndar, hringdi og sagði; Þetta er Tomek frá Varsjá, ég vil gera bíómynd með þér,“ rifjar Wasilewski upp. Hann sendi Mutu handritið og viku seinna töluðu þeir betur saman. „Honum leist mjög vel á handritið og við töluðum saman í klukkutíma og áttuðum okkur skyndilega á því að við höfðum áhuga á því sama þegar kemur að kvikmyndagerð, við vorum að leita að því sama.“

Og hverju voru þeir að leita að? „Manneskjum. Svo einfalt er það, það er það sem Oleg gerir. Hann nær að fara með myndavélina inní hausinn á leikurunum og það er ótrúlegt að sjá. Við unnum þetta 100 prósent saman, við hugsuðum myndina sjónrænt saman. Það var mikill heiður að vinna með honum.“

Það sem maður tekur fyrst eftir þegar maður horfir á myndina eru litirnir. Í fyrstu senunni eru aðeins fáeinir hlutir í lit, restin er svart-hvít. Eftir því sem líður á verður allt í lit – en samt varla. „Ég ólst upp við kommúnisma, það var mikilvægt að Oleg gerði það líka, við vildum ekki tengja kommúnismann landi, við vildum bara ná þessari tilfinningu fyrir tíma, þannig að þú myndir skynja það út frá myndinni, og þegar við fórum að tala um litina í myndinni þá rifjuðum við þessa tíma upp og áttuðum okkur á því að við mundum enga liti frá þessum tíma. Svona mundum við þennan tíma, þannig að á einu augnabliki áttuðum við okkur á að við yrðum að nota þessa liti. Nánast ekki-liti, því þó þetta séu litir þá eru mjög daufir, mattir. Þannig mundum við þennan tíma og þannig vildum við sýna hann.“

Nakið nostalgíuleysi

Ein af þeim aðferðum sem þeir nota til þess að komast inn í hausinn á persónunum er í gegnum nekt. „Líkamar skipta miklu máli í myndunum mínum, nekt er eitthvað persónulegt en um leið svo hversdagsleg. Þetta er líf, þetta er manneskja, og þegar myndavélin kemur að líkamanum og sýnir líkamann þá er maður að gefa áhorfandanum innsýn í eitthvað mjög persónulegt, því við erum oftast ein með sjálfum okkur á þessum stundum, þannig að ég treysti því að þessar senur rífi niður vegginn á milli áhorfandans og bíómyndarinnar, þannig að það verði ekkert bíótjald lengur, auga myndavélarinnar verði einfaldlega auga áhorfandans. Það er líka ástæðan fyrir því að ég reyni að klippa sem minnst. Fyrir mér er klipping alltaf blekking. Ég vil ekki blekkingar í myndunum mínum. Blekking er eitthvað sem segir mér að þetta sé ekki alvöru. Þegar ég reyni að tengja við þessar dýpstu tilfinningar karakteranna, en um leið áhorfendanna.“

En hvernig var að ganga aftur inn í þennan heim? „Veistu, það var gaman að sjá þessar byggingar aftur. Ég ólst upp í þessum byggingum, en maður finnur þær varla í Póllandi lengur. Ég sé þær raunar ennþá hér í Berlín, sem mér finnst yndislegt. Hér er þeim leyft að vera eins og þær voru og það er hluti af sögunni. Í Póllandi lita þeir þær bleikar, gular, grænar … en okkur tókst samt að finna rétta staðinn, en þegar ég fór þangað aftur fann ég ekki fyrir neinni nostalgíu. Vegna þess að ég hafði steingleymt kommúnismanum. Við vöndumst frelsinu mjög hratt. Það gerðu flestir Pólverjar, mín kynslóð gerði það, þau sem eru yngri vita varla neitt um kommúnisma. En við gerð myndarinnar leitaði ég aftur í sögu Póllands og varð dapur yfir því að þetta hefði gerst. Fyrir mér er kommúnismi eitt það versta sem hefur gerst í heiminum, þetta ófrelsi. Þetta var ekki nostalgía heldur reiði yfir að þetta hefði gerst. Pólland glataði svo mörgum árum í kommúnistakjaft.“

Áhorfandinn þarf að velja

Myndir Wasilewski enda sjaldnast vel. Hefur það aldrei freistað hans að gefa áhorfendum glaðlegri endi? „Nei,“ er svarið.

„Ég veit ekki af hverju samt, það er erfitt að útskýra, svona sé ég kvikmyndir, mínar kvikmyndir. Ég reyni allt til að snerta sál áhorfendans, það er mín leið til að segja sögur, ég á erfitt með að útskýra af hverju. Ég geri ekki gamanmyndir, ég geri bara drama, ég veit ekki af hverju ég geri ekki gamanmyndir, dramað er bara það sem ég skil. Ég vinn með innsæi, ég byrja ekki með konsept af bíómynd. Þegar ég byrja að skrifa þarf ég að finna eitthvað. Ég skrifa ekki drög, ég byrja bara að skrifa og fer lengra og lengra þangað til ég finn persónurnar. En brotnar manneskjur, brotnar sálir, það eru þær sem ég tengi við og get snert. Þess vegna vel ég slíkar persónur. En svo skil ég alltaf við þær án svara, án áfangastaðar, því ég vil að áhorfandinn geti valið hvert þær fara næst.“

Kieslowski og Coppola

Sumir gagnrýnendur hafa bent á líkindi Wasilewski við pólska meistarann Krzysztof Kieslowski. Hann er upp með sér yfir samanburðinum. „En ég sá Boðorðin tíu ekki fyrr en eftir að ég kláraði myndina. Það sem ég elska við Kieslowski er hversu mennskur hann er, það er ótrúlegt hvernig hann sér fólk og hvernig hann snertir það. Það er það sem ég hef mestan áhuga á í kvikmyndum, að túlka tilfinningar, sjá hvað persónurnar mínar eru að ganga í gegnum. Kieslowski var auðvitað að gera sínar helstu myndir í kringum 1990. Þannig að líkindin koma kannski þaðan, þetta eru sömu byggingar, sama hárið, sömu fötin, allt þetta sama. Ég held að það sé þessi tilfinning fyrir tímanum og hvernig við horfum á fólk [sem við eigum við máski sameiginlegt].“

Eftir Kieslowski rifjar hann  upp aðra eftirlætisleikstjóra. „Það eru tveir sem ég virkilega elska, sem eru meistararnir mínir, þeir Michael Haneke og Ulrich Seidl. Ég virkilega elska myndirnar þeirra, en svo dýrka ég líka myndirnar hennar Sofiu Coppola, sem eru allt öðruvísi, Darren Aranofsky líka, það er hellingur af myndum sem eru mér mjög kærar og líklega eru þær einhvers staðar þarna upp í hausnum á mér þegar ég er að vinna, en þegar ég er að gera bíómyndir er ég aldrei með neinar meðvitaðar vísanir, því þessi mynd verður að vera mín mynd. Eins og ég sagði áðan vinn ég með innsæið, þannig að ég treysti sjálfum mér algerlega þegar ég er að vinna, þegar ég er að skrifa og leikstýra leikurum og tökumönnum, kannski fer það í gegnum mig, en ég geri aldrei mynd og hugsa með mér að hún eigi að líta svona út, jafnvel þótt ég viti hvað ég vill þá kemur lokaniðurstaðan mér alltaf á óvart þegar ég sé hana.“

Þetta er þriðja mynd Wasilewski, hinar voru Í svefnherberginu (W sypialni) og Fljótandi skýjakljúfar, sem voru frumsýndar árin 2012 og 2013. En hann skrifaði þessa fyrst. „Ég skrifaði þessa mynd fyrir tíu árum, þótt hún hafi auðvitað breyst síðan. Ég reyndi að gera þessa mynd þá, en það var of erfitt að fjármagna hana, þannig að ég ákvað að gera algjörlega óháða mynd. Þannig að ég gerði Í svefnherberginu fyrir 20 þúsund evrur (rúmlega 2,8  milljónir króna) og hún gekk mjög vel utan Póllands, og líka í Póllandi, merkilegt nokk … svo gerði ég Fljótandi skýjakljúfar árið eftir. Þegar ég gat ekki gert myndina var ég að skrifa næsta handrit, ég hefði viljað gera þessa fyrr, en ég þurfti að bíða.“

En hvað bíður núna?

„Ég er að skrifa handrit fyrir næstu mynd, núna finnst mér ég loksins vera búinn með Bandaríki ástarinnar, ég hef unnið að henni á hverjum degi í tvö og hálft ár, frumsýningin var í gær og núna fyrst finnst mér ég vera búinn með hana, núna gef ég áhorfendum hana svo ég geti byrjað að vinna í næstu verkefnum,“ segir hann og kjarnar ágætlega hve öfugsnúnar kvikmyndahátíðir geta verið; þar sem við blaðamennirnir komum til að flytja fréttir af öllum þessum splunkunýju myndum til heimsbyggðarinnar – og hittum til þess kvikmyndagerðarmennina sem eru að kveðja þessar sömu myndir. En áður en hann kveður myndina alveg, hvað getur hann sagt okkur um þennan titil?

„Ástin í titlinum er ekki bara ást, heldur allar tilfinningarnar í myndinni, sem þú getur tengt þessum persónum, frá ást til sársauka, örvæntingar, ástríðu, losta, þetta er allt ást fyrir mér og allar þessar tilfinningar sameina persónurnar, þótt þær viti það ekki endilega, og svona vil ég sameina áhorfendurna, með tilfinningum persónanna, þess vegna valdi ég titilinn Bandaríki ástarinnar.“

Ásgeir H. Ingólfsson
Ásgeir H. Ingólfsson
Ásgeir H. Ingólfsson er blaðamaður og gagnrýnandi.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR