Meðlimir Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar völdu kvikmyndina Þresti sem framlag Íslands til Óskarsverðlaunanna á næsta ári.
Þrestir hlaut meirihluta atkvæða Akademíumeðlima en kosningu lauk á miðnætti í gær. Kosningin fór fram rafrænt og kosið var á milli þeirra fjögurra íslensku kvikmynda sem uppfylltu það skilyrði bandarísku kvikmyndaakademíunnar að hafa verið frumsýndar á tímabilinu 1. október 2015 til 20. september 2016 (auk Þrasta – Eiðurinn, Fyrir framan annað fólk og Reykjavík).
Þrestir er ljóðrænt drama sem fjallar um Ara, 16 ára pilt, sem sendur er á æskustöðvarnar vestur á firði til að dvelja hjá föður sínum um tíma. Samband hans við föður sinn er erfitt og margt hefur breyst í plássinu þar sem hann ólst upp.
Tvær íslenskar kvikmyndir hafa hlotið tilnefningu til Óskarsverðlaunanna. Börn náttúrunnar eftir Friðrik Þór Friðriksson var tilnefnd árið 1992 í flokknum besta erlenda kvikmyndin og árið 2006 var Síðasti bærinn eftir Rúnar Rúnarsson tilnefnd í flokknum besta leikna stuttmyndin.
Rétt er að taka fram að ritstjóri Klapptrés er jafnframt leikstjóri og handritshöfundur kvikmyndarinnar Reykjavík.