Baltasar um „Eiðinn“: Stjórnsemin er skepna

Eiðurinn - Baltasar Kormákur fer með aðalhlutverkiðBaltasar Kormákur er í viðtali við Birgi Örn Steinarsson hjá Fréttablaðinu um Eiðinn sem hann leikstýrir og leikur aðalhlutverkið í.

Í viðtalinu segir m.a.:

Ólafur Egilsson var undir áhrifum úr eigin reynsluheimi þegar hann skrifaði handritið og Baltasar segist hafa tengt við persónu og breyskleika Finns. Mann sem hefur nær algjöra stjórn á eigin lífi en er svo gjörsamlega bjargarlaus þegar kemur að lífi hans nánustu.

„Það hljómar kannski svolítið hrokafullt en þegar ég fór að skoða þetta þá fannst mér ég vera mjög heppilegt val í hlutverkið,“ segir Baltasar. „Mér fannst þessi maður að sumu leyti líkur mér. Hann hefur notið mikillar velgengni í starfi. Hann telur sig geta stjórnað hlutum í lífi sínu, og jafnvel í lífi annarra vegna starf síns, en svo þegar kemur að hans nánustu þá finnur hann til smæðar sinnar og valdleysis. Ég tengi við þetta. Sama hversu vel maður getur þjálfað það að vera flottur í blaðaviðtölum eða að stjórna stærðarinnar áhöfnum í Ameríku þá er maður ekki leikstjóri síns eigin lífs.“

Baltasar vinnur við það að segja öðrum hvað þeir eigi að gera, hvar þeir eigi að vera og hvernig þeir eigi að haga sér í vissum aðstæðum. Hann vinnur einnig við það að veiða hugmyndir úr tóminu og ákveða hverjar þeirra séu líklegastar til þess að ná blóma. Það er því kannski ekkert svo undarlegt að hann detti stundum í leikstjórann á sínu eigin heimili.

„Stundum kemur maður heim eftir að hafa verið á setti í Bandaríkjunum og her manna er búinn að hlýða manni eins og maður sé Guð almáttugur. Maður er búinn að vera stjórna mönnum eins og Denzel Washington og jafnvel hann er búinn að beygja sig fyrir manni. Svo er maður í þeirri orku þegar heim er komið en þar gilda önnur lögmál. Það getur tekið tíma fyrir mann að stilla sig af,“ segir Baltasar.

„Ég á erfitt með að hemja mig þegar hlutir fara ekki á þann hátt sem ég vil. Ég hef nú lært að díla við það betur með aldrinum en hér áður fyrr þá barði ég menn og rakst utan í fólk ef það gat ekki verið sammála mér um hvernig hlutir ættu að vera. En það var nú meira tengt drykkju og öðru sem ég hef náð að slíta mig frá.“

Kannast við svipaðar aðstæður úr eigin lífi
Baltasar segir að persóna hans í Eiðnum eigi í sömu baráttu. Stjórnsemi sé skepna sem erfitt sé að temja. Þannig geti góðir menn sem vanir séu að halda um taum eigin lífs frekar kosið að ríða inn á myrk svæði en að sætta sig við eigin vanmátt gagnvart óviðráðanlegum aðstæðum.

„Sumir telja að hið illa komi að utan en yfirleitt er það nú þannig að hið illa kemur að innan. Í hverjum og einum okkar getur leynst mikil illska og ólga sem eru ekkert endilega fyrirsjáanlegar. Ákveðnar aðstæður geta kallað fram svoleiðis hluti. Ég er þannig maður að ég er eiginlega hræddastur við sjálfan mig. Ég er ekkert endilega hræddur við hvað aðrir menn gera mér. Ég er miklu hræddari við hvernig ég myndi haga mér í ákveðnum kringumstæðum. Það er talað um að lofthræðsla sé ekki hræðsla við að falla, heldur hræðslan við að stökkva. Það þekki ég mjög vel – að þurfa að spyrja sjálfan mig hvort ég sé nægilega brjálaður til þess að stökkva fram af brúninni.“

Sjá nánar hér: visir.is

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR