Spennumyndin „Grimmd“ frumsýnd 21. október

Margrét Vilhjálmsdóttir fer með annað aðalhlutverkið í Grimmd eftir Anton Sigurðsson.
Margrét Vilhjálmsdóttir fer með annað aðalhlutverkið í Grimmd eftir Anton Sigurðsson.

Spennumyndin Grimmd verður frumsýnd þann 21. október næstkomandi. Myndin er úr smiðju Antons Sigurðssonar (Grafir og bein) og framleiðandi er Haraldur Bender fyrir Virgo Films. Margrét Vilhjálmsdóttir og Sveinn Ólafur Gunnarsson fara með helstu hlutverk.

Vísir greinir frá:

Um er að ræða íslenska spennumynd sem segir frá því þegar tvær ungar stelpur hverfa sporlaust af leikvelli í Árbænum. Stúlkurnar finnast látnar í Heiðmörk og í einbeittri rannsókn í leit að sökudólgum fléttast saman nokkrar sögur þegar hræðileg atriði í máli stúlknanna koma upp á yfirborðið.

Þjóðfélagið fer á annan endann vegna málsins og reyndustu rannsóknarlögreglumenn landsins, þau Edda Davíðsdóttir (Margrét Vilhjálmsdóttir) og Jóhannes Schram (Sveinn Ólafur Gunnarsson) eru kölluð til. Þau eru bæði staðráðin í að leysa málið en þurfa að etja kappi við tímann þegar hvimleið atvik úr fortíðinni líta dagsins ljós og erfið rannsóknin flækist enn frekar. Fyrsta stiklan úr myndinni verður frumsýnd á Vísi á mánudaginn næstkomandi.

„Ég get staðfest fyrir hönd Senu að eftirvæntingin fyrir Grimmd er mjög mikil af okkar hálfu,“ segir Konstantín Mikaelsson yfirmaður kvikmyndadeildar Senu sem framleiðir myndina. Stöð 2 hefur nú þegar tryggt sér sýningarréttinn á myndinni þegar hún kemur úr kvikmyndahúsum.

Konstantín segir að um sé að ræða frábæra Skandinavískan krimma.

„Við erum að spá því að þetta gæti orðið ein af tveimur stærstu íslensku myndum ársins og í okkar plönum gerum við ráð fyrir að hún verði á topp 10 listanum okkar þegar árið er gert upp.“

Sjá nánar hér: visir.is

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR