Breski framleiðandinn Stephen Follows, sem sérhæfir sig í framsetningu gagna og tölulegra upplýsinga um breskan kvikmyndaiðnað, hefur birt grein á vef sínum þar sem hann fer yfir hugsanlega galla og kosti við útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu. Margt af því sem hann nefnir snertir íslenskan kvikmyndaiðnað á einn eða annan hátt.
Hér eru helstu punktarnir í vangaveltum hans, en nánari útlistanir má lesa í greininni sjálfri (sjá hlekk neðst).
Mögulegir gallar fyrst:
- Styrkir frá MEDIA / Creative Europe hætta (ljóst).
- Til skemmri tíma verður samframleiðsla með öðrum Evrópulöndum flóknari (mjög líklegt).
- Til lengri tíma þarf að búa til lagaramma fyrir samframleiðslu milli Bretlands og Evrópu. (óljóst).
- Breskt efni verður minna aðlaðandi fyrir evrópskar sjónvarpsstöðvar (mjög líklegt).
- Aukið flækjustig fyrir alþjóðlegt starfslið kvikmynda (mögulegt en óljóst).
- Færri breskar myndir verða sýndar í Evrópu (ljóst).
- Alþjóðlegum myndum fækkar í Bretlandi (ljóst, þó að umfang sé ekki vitað).
- Sjálfstæð kvikmyndahús í Bretlandi missa tekjur (ljóst, þó að umfang sé ekki vitað).
- Hin neikvæðu áhrif óvissunnar (mjög líklegt).
- Möguleiki til að hafa áhrif á evrópskar reglur varðandi breskt efni hverfur (ljóst, en ekki vitað um áhrif).
Mögulegir kostir:
- Það verður ódýrara að filma í Bretlandi (óljóst).
- Bretland getur hagað sínum skattafslætti eins og því sýnist (ljóst).
- Bretland getur forðast mögulegar nýjar evrópskar reglur um dreifingu efnis (Digital Single Market) (frelsið er ljóst en óvíst hvernig reglurnar verða eða hvort þær taki gildi).
- Bretland getur sett peninga sem áður fóru í evrópusamstarf beint til iðnaðarins (afar óljóst).
Sjá nánar hér: How will Brexit affect the UK film industry?