„Pale Star“ og „A Reykjavík Porno“ í framleiðslu Vintage Pictures valdar inn á Edinborgarhátíðina

Rammi úr Pale Star.
Rammi úr Pale Star.

Pale Star og A Reykjavik Porno, tvær íslensk/skoskar kvikmyndir eftir sama leikstjóra hafa verið valdar inn á kvikmyndahátíðina í Edinborg sem fram fer dagana 15.-26. júní.

Vintage Pictures, kvikmyndafyrirtæki Birgittu Björnsdóttur og Hlínar Jóhannesdóttur, framleiddi myndirnar sem eru eftir skoska leikstjórann Graeme Maley, en hann hefur verið með annan fótinn á Íslandi sl. 7 ár.

Þrúður Vilhjálmsdóttir og Þröstur Leó Gunnarsson leika aðalhlutverkin í Pale Star, sem er lýst sem sálfræðitrylli.

Albert Halldórsson, Ylfa Edelstein og Þuríður Blær Jóhannsdóttir fara með aðalhlutverkin í A Reykjavik Porno, svarthvítri (noir) Reykjavíkurmynd.

Óvenjulegt má teljast að sami leikstjóri komi tveimur myndum í einu inn á sömu hátíðina og enn sérstakara þegar um er að ræða virta hátíð á borð við Edinborgarhátíðina.

Graeme Maley hefur lengst af starfað í leikhúsi en byrjaði fyrir nokkrum árum að skrifa kvikmyndahandrit. Hann setti sig í samband við Vintage Pictures í október 2014. A Reykjavik Porno var svo tekin upp í janúar 2015 og Pale Star í mars-apríl sama ár. Báðar myndirnar voru svo tilbúnar í byrjun árs.

Arnar Þórisson var kvikmyndatökumaður á báðum myndum.

Klapptré hefur áður sagt frá A Reykjavik Porno hér og Pale Star hér.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR