Grímur Hákonarson lýkur tökum á „Litlu Moskvu“

Grímur Hákonarson leikstjóri.
Grímur Hákonarson leikstjóri.

Grímur Hákonarson hefur lokið tökum á Litlu Moskvu, nýrri íslenskri heimildamynd um Neskaupstað þar sem sósíalistar fóru með stjórn frá árinu 1946 til ársins 1998.

RÚV segir frá:

Grímur Hákonarson lauk tökum á Litlu Moskvu í síðustu viku en hann segir hugmyndina hafa kviknað fyrir rúmum tveimur árum, sumarið 2013, eftir samtal við félaga sinn Ingimar Pálsson organista sem hafi verið staddur fyrir austan.

„Síðan hef ég unnið í þessari mynd með hléum, en ég hef árum saman verið áhugamaður um sögu og pólítík, eins og sjá mátti í Hvelli, heimildamynd um upphaf náttúruverndarbaráttu á Íslandi sem hverfðist um mótmæli bænda gegn stíflum í Laxá í Suður-Þingeyjarsýslu.“

Grímur segir nýju myndina annars eðlis en fyrri heimildamyndir sínar, Hvell og Hreint hjarta, sem báðar unnu til margvíslegra verðlauna. Litla Moskva fjalli um heilt bæjarfélag og hvernig það hefur breyst í tímans rás, frá því að sósíalistar réðu ríkjum í bænum og til dagsins í dag.

“Í myndinni er mikið verð að bera saman hvernig samfélagið var og hvernig það er í dag. Það eru ólíkir einstaklingar í forgrunni, með mismunandi skoðanir á fortíð og framtíð bæjarins, en sjálfur forðast ég algjörlega að taka pólitíska afstöðu. Ég mun einnig fjalla um nýju jarðgöngin og þær væntingar sem bæjarbúar hafa til þeirra. Neskaupstaður hefur alltaf verið einangraður og það hefur haft áhrif á bæinn og íbúana.”

Hálfrar aldar valdatíð sósíalista 

Neskaupstað var stjórnað að sósíalistum í um hálfa öld, frá 1946-1998, fyrst af Sósíalistaflokknum og síðan af Alþýðubandalaginu. Aðspurður segir Grímur að umdeilanlegt sé hversu sósíalístiskar áherlsur hafi verið í mótun innviða samfélagsins í raun og veru.

„Það voru sósíalískar áherslur á ýmsum sviðum, í atvinnulífinu var mikið um félagslegan rekstur og ágóðinn af sjávarútveginum var notaður til að byggja upp innviði bæjarins. Kommarnir byggðu upp öflugar velferðarstofnanir, eins og sjúkrahús og skóla, og voru oft á undan sinni samtíð í þeim efnum. Það var engin auðstétt í Neskaupstað á þessum árum, engir stórkapítalistar. Kommarnir réðu lögum og lofum bæði í stjórnkerfinu og í atvinnulífinu. Það hafði að sjálfsögðu bæði kosti og galla í för með sér.”

Valdatíð vinstri aflana lauk þegar Neskaupstaður rann saman við Eskifjarðarkaupstað og Reyðarfjarðarhrepp í sveitarfélagið Fjarðabyggð árið 1998.

Grímur segir að bærinn sé mikið breyttur í dag en þó eimi enn eftir af gamla sósíalismanum.

“Það er mikill samhugur á meða Norðfirðinga, hvort sem það er arfleifð frá sósíalismanum eða einhverju öðru, þá finnur maður fyrir því. Það eru ennþá haldin þorrablót í bænum sem heita “Kommablót” og Samvinnufélag Útgerðarmanna er ennþá til og sinnir ákveðnu félagslegu hlutverki í bænum”.

Sem dæmi um ímynd samfélagsins segir Grímur að sterk tengsl Norðfirðinga við Sovétríkin á ákveðnu árabili hafi Neskaupstaður haft sérstöðu þegar kom að starfsemi Menningarfélags Íslands og Rússlands, en MÍR hafi rekið starfsemi í bænum, auk aðalstöðvanna í Reykjavík. Komur rússneskra listamanna og annarra sovétskra menningarfrömuða hafi verið reglulegar. Grímur segir að þó að margir af hinum gömlu sósíalistum sé dánir þá sem ennþá til fólk í bænum sem upplifði þessa tíma og getur sagt frá.

“Mér finnst ég vera að bjarga ákveðnum menningarverðmætum með þessari mynd. Þetta er merkileg saga sem á skilið að komast á hvíta tjaldið og það hefði ekki verið hægt að bíða mikið lengur eftir því að gera hana. Kveikjan að henni var áhugi minn frá barnæsku, þar sem maður fylgdist alltaf með þessum sérstaka stað fyrir austan í kosningasjónvarpinu. Síðan fór boltinn að rúlla þegar ég fékk símtal frá félaga mínum sem var staddur þar sumarið 2013.“

Framleiðandi myndarinnar er Hark kvikmyndagerð sem Grímur rekur sjálfur. Stefnt er að því að klára myndina á næsta ári og frumsýna hana næsta haust.

Sjá hér: Tökum lokið á Litlu Moskvu | RÚV

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR