Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra hefur lagt fram frumvarp um miðastyrki vegna sýninga á kvikmyndum á íslensku í kvikmyndahúsum hér á landi.
Samkvæmt frumvarpinu verður heimilt að greiða sérstaka styrki, miðastyrki, úr ríkissjóði vegna sýninga á kvikmyndum á íslensku í kvikmyndahúsum hér á landi ef myndirnar eru unnar og kostaðar af framleiðendum með staðfestu á Íslandi eða framleiðendum með staðfestu í EES-ríki. Heimildin tekur einnig til framleiðslu kvikmynda á íslensku sem framleiddar eru sem samstarfsverkefni slíkra framleiðenda og erlendra aðila. Styrkir eru greiddir vegna sýninga á árunum 2013–2016.
Í athugasemdum með frumvarpinu segir meðal annars:
Markmiðið með frumvarpi þessu er að efna ákvæði samkomulags um stefnumörkun fyrir íslenska kvikmyndagerð og kvikmyndamenningu árin 2012–2015. Með frumvarpinu er lagt til að greiddir verði styrkir til kvikmyndaframleiðenda vegna sýninga á kvikmyndum á íslensku til að vega upp á móti áhrifum af álagningu virðisaukaskatts á aðgöngumiða að sýningum á íslenskum kvikmyndum sem kom til framkvæmda 2013.
Og síðar:
Vegna yfirstandandi endurskoðunar á kvikmyndalögum, þar sem framtíðarfyrirkomulag miðastyrkja verður ákveðið, þykir rétt að efna samkomulagið með því að kveða í sérstökum lögum á um tímabundna sýningarstyrki sem miða að því að brúa bilið þar til ný kvikmyndalög taka gildi. Þrátt fyrir að ráð sé fyrir gert að breytt kvikmyndalög taki gildi fyrir 18. september 2016 er miðað við að lög þessi falli ekki úr gildi fyrr en um áramótin 2016/2017 og gildi um miðastyrki vegna sýninga ársins 2016. Hér er haft í huga að skapa kvikmyndaframleiðendum viðunandi fyrirsjáanleika varðandi fjármögnun þar sem dregist getur fram í september 2016 að ný lög taki gildi og fram til þess tíma er ekki vitað með vissu hvernig styrkjakerfi Kvikmyndasjóðs verður fyrir komið.
Frumvarpið má skoða hér.