Stuttmynd Þóru Hilmarsdóttur, Sub Rosa, var valin besta stuttmyndin á San Diego Film Festival sem lauk 4. október s.l. Myndin verður sýnd á Northern Wave hátíðinni sem fram fer á Grundarfirði um helgina.
Sub Rosa skyggnist inn í líf Tildu, 8 ára stelpu sem elst upp í blómabúð þar sem heldur óviðeigandi athæfi fer fram bak við tjöldin. Með barnslega forvitni að vopni hnýsist Tilda í undirheima búðarinnar meðan sjálfsmynd hennar mótast á ofsahraða.
Myndin var tekin upp í London í fyrra þar sem Þóra býr með annan fótinn. Ágúst Jakobsson var tökumaður en starfsliðið var að öðru leyti bæði breskt og íslenskt. Myndin fékk sérstaka viðurkenningu á RIFF í fyrra og hlaut einnig tilnefningu til Edduverðlauna í flokki stuttmynda. Hún hefur ferðast á fjölda hátíða undanfarið ár og verður til dæmis einnig sýnd á San Francisco Shorts um helgina og er jafnframt tilnefnd fyrir besta handrit á Underwire hátíðinni í Bretlandi sem er fyrir konur í kvikmyndagerð.
Þóra vinnur nú ásamt Snjólaugu Lúðvíksdóttur handritshöfundi að nýrri stuttmynd sem kallast Frelsun og verður tekin upp á Íslandi. Þær eru einnig að skrifa handrit að mynd í fullri lengd.
Nýjasta afurð Þóru er tónlistarmyndband fyrir Mr. Silla sem sjá má hér að neðan: