Verðlaunaafhending RIFF hátíðarinnar fór fram í Iðnó í kvöld. Aðalverðlaunin, Gullni lundinn, féllu í skaut írönsku myndinni Wednesday, May 9 eftir Vahid Jalivand.
Söguþræði myndarinnar er lýst svo:
Maður að nafni Jalal birtir óvenjulega auglýsingu í einu af dagblöðum Tehran, höfuðborgar Írans. Auglýsingin lofar tíu þúsund dollurum til manneskju í neyð. Fréttirnar berast eins og eldur í sinu og fljótlega hefur safnast saman stór hópur fólks. Í lok dags hafa honum borist margar umsóknir og hann ákveður að velja eina af handahófi. Umsækjendur halda því fram að auglýsingin sé eina lausn vandamála þeirra. Lögreglan skerst í leikinn; reynir að róa mannskapinn og leysa upp mannþröngina. En tvær konur í hópnum neita að láta segjast: Setareh, sem er nítján ára og ólétt, og Leila, fyrrverandi unnusta Jalals.
Morgunblaðið skýrir frá:
FIPRESCI verðlaun samnefndra alþjóðasamtaka kvikmyndagagnrýnenda hlaut bandaríska myndin Krisha eftir Trey Edward Shults. Dómnefndin sagði myndina sýna hvernig sprungur geta myndast og stækkað á milli fjölskyldumeðlima á kvalarfullan hátt, en á sama tíma fylli hún áhorfandann af ást og umhyggju fyrir öllum persónum myndarinnar.
Myndin How to Change the World eftir Jerry Rothwell fékk umhverfisverðlaunin. Dómnefnd segir myndina gefa nýja og upplýsandi mynd af efni sem margir telja sig hafa töluverða þekkingu á.
Áhorfendaverðlaunin úr flokki heimildarmynda sem kosið var um á mbl.is hlaut svo mexíkóska/bandaríska myndin Cartel Land eftir Matthew Heineman. Myndin fjallar um vargöld sem geisar í Mexíkó þar sem morðóðar glæpaklíkur ráða víða ríkjum.
Þá voru einnig veitt verðlaun fyrir bestu íslensku stuttmyndina í samvinnu við RÚV. Tvær myndir skiptu með sér þeim verðlaunum. Það voru myndirnar Heimildarminnd eftir Jón Ásgeir Karlsson og Regnbogapartý eftir Evu Sigurðardóttur. Dómnefnd sagði myndirnar vera hnífjafnar þó ólíkar séu og því hefði verið óréttlátt gagnvart þeim að taka aðra þeirra fram yfir hina.
Að lokum voru hvatningarverðlaunin Gullna eggið veitt Harry Cherniak og Dusty Marnicinelli fyrir mynd sína Winter Hymns. Um Gullna eggið keppa myndir sem sýndar eru í kvikmyndasmiðju RIFF fyrir upprennandi kvikmyndaskáld. Dómnefnd sagði að myndin næði áhorfandanum frá fyrsta ramma en í henni er sögð saga tveggja bræðra. Í umsögn dómnefndar segir að sagan sé sögð á afar raunverulegan, hlýjan og tilfinninganæman hátt.