Laufey Guðjónsdóttir: Árangurshlutfall kynja í styrkveitingum jafnt síðastliðinn áratug

Laufey Guðjónsdóttir forstöðumaður Kvikmyndamiðstöðvar Íslands.
Laufey Guðjónsdóttir forstöðumaður Kvikmyndamiðstöðvar Íslands.

Laufey Guðjónsdóttir forstöðumaður Kvikmyndamiðstöðvar íslands skrifar grein í Fréttablaðið í dag þar sem fram koma ítarlegri upplýsingar um skiptingu styrkja milli kynja en áður hafa birst. Tölurnar ná til áranna 2005-2015 og kemur í ljós að árangurshlutfall karla og kvenna er jafnt, 58%.

Ítarlegri grein Laufeyjar birtist hér að neðan ásamt skýringamyndum.

Umræða um stöðu og þátt kvenna í kvikmyndagerð hefur verið þó nokkur síðustu misserin. Það er þakkarvert hve konur sem starfa við kvikmyndagerð hafa verið ötular við að benda á það ójafnvægi sem ríkir þegar kemur að hlut kvenna, bæði hvað varðar lykilstörf og efnivið kvikmynda. Almennt þurfa konur að berjast fyrir jafnrétti á flestum sviðum samfélagsins en það er sérstaklega mikilvægt að raddir kvenna heyrist til jafns við karla í kvikmyndum og fjölmiðlum, enda eru þetta mjög áhrifamiklir miðlar í samfélaginu, ekki síst þegar kemur að fyrirmyndum.

Athygli hefur í miklum mæli beinst að Kvikmyndamiðstöð Íslands (KMÍ), enda er hún eina stofnunin á vegum hins opinbera á sviði kvikmynda fyrir utan Kvikmyndasafn. Framleiðsla kvikmynda er dýr og því er um að ræða háar fjárveitingar af opinberu fé til framleiðenda. Því er mikið í húfi að rétt sé staðið að úthlutunum og að fjármunir skili sér í vönduðum kvikmyndum. Kvikmyndasjóður þarf að stuðla að kraftmiklu umhverfi og gæta réttlætis. KMÍ hefur á fyrri stigum tekið saman og birt tölur um umsóknir og styrkveitingar til kvenna. Við höfum nú tekið saman ítarlegri tölur en áður með von um að það varpi betra ljósi á stöðuna og vinnubrögð KMÍ s.l. 10 ár. Nokkuð hefur borið á rangfærslum um fjölda styrkja og kvikmynda eftir konur en vonandi tekst okkur með betri upplýsingagjöf að skýra þátt KMÍ á þessu sviði.

Nokkrar tölur

Kvikmyndagerð er dýrt ferli, flókið og margbrotið og því koma ótalmargir að gerð hverrar kvikmyndar. Hér eru aðeins teknar saman tölur um lykilfólk, þ.e. handritshöfunda, leikstjóra og framleiðendur, til samræmis við það sem tíðkast í sambærilegri tölfræðilegri samantekt erlendis, t.d. í Svíþjóð. Þessi störf ráða úrslitum í því að koma röddum og sjónarhornum kvenna á framfæri. Fjöldi kvenna hefur komið að öðrum störfum, bæði á listrænu sviði og í framkvæmdaþáttum, og hefur hróður nokkurra borist víða, bæði hér á landi og alþjóðlega þótt þeirra verk séu ekki talin með í þessu samhengi.

Mynd 1 Framleiðslustyrkir og vilyrði úr Kvikmyndasjóði 2005-2015Mynd 1: Framleiðslustyrkir og vilyrði úr Kvikmyndasjóði 2005-2015. Hér má sjá annars vegar fjölda umsókna og hins vegar styrkveitingar eftir kyni leikstjóra fyrir leiknar myndir í fullri lengd ásamt hlutfalli um árangur umsókna eftir kyni

Eins og sjá má á mynd 1 bárust alls 154 umsóknir um framleiðslustyrki 2005-2015. 127 umsóknir bárust þar sem leikstjóri er karl og voru veittir 74 styrkir og vilyrði. 26 umsóknir bárust þar sem leikstjóri er kona og veittir 15 styrkir. Árangurshlutfall karla og kvenna er jafnt, 58%.Á sama tímabili voru konur framleiðendur 38 mynda af 71 sem hlutu endanlegan framleiðslustyrk.

Mynd 2 Framleiðslustyrkir og vilyrði úr Kvikmyndasjóði 2012-2015Mynd 2: Framleiðslustyrkir og vilyrði úr Kvikmyndasjóði 2012-2015. Úthlutanir eftir kyni leikstjóra. Tölurnar eiga við leiknar myndir í fullri lengd, leikið sjónvarpsefni, heimildamyndir og stuttmyndir.

Á mynd 2 má sjá fjölda úthlutana framleiðslustyrkja og vilyrða eftir kyni leikstjóra fyrir leiknar myndir í fullri lengd, leikið sjónvarpsefni, heimildamyndir og stuttmyndir á árunum 2012-2015. Árið 2012 voru karlkyns leikstjórar með framleiðslustyrk eða vilyrði 18 talsins og kvenkyns leikstjórar 8, árið 2013 voru karlar 21 og konur 5, árið 2014 voru karlar 19 og konur 8 og til þessa árið 2015 eru karlarnir 9 og konurnar 7.

Mynd 3 Framleiðslustyrkir og vilyrði úr Kvikmyndasjóði 2012-2015Mynd 3: Framleiðslustyrkir og vilyrði úr Kvikmyndasjóði 2012-2015. Úthlutanir eftir kyni. Tölurnar eiga við leiknar myndir í fullri lengd, leikið sjónvarpsefni, heimildarmyndir og stuttmyndir og ná til handritshöfunda, leikstjóra og framleiðenda.

Á mynd 3 má sjá fjölda úthlutana framleiðslustyrkja og vilyrða eftir kyni handritshöfunda, leikstjóra og framleiðenda fyrir leiknar myndir í fullri lengd, leikið sjónvarpsefni, heimildamyndir og stuttmyndir á árunum 2012-2015. Árið 2012 voru karlmenn í lykilstöðum með framleiðslustyrk eða vilyrði 45 talsins og  konur 25, árið 2013 voru karlar 61 og konur 12, árið 2014 voru karlar 52 og konur 23 og til þessa árið 2015 eru karlarnir 25 og konurnar 20.

Mynd 4 Framleiðslustyrkir og vilyrði úr Kvikmyndasjóði 2012-2015Mynd 4:  Framleiðslustyrkir og vilyrði úr Kvikmyndasjóði 2012-2015. Úthlutanir eftir kyni leikstjóra fyrir leiknar myndir í fullri lengd.

Á mynd 4 má sjá úthlutanir framleiðslustyrkja og vilyrða í prósentum eftir kyni leikstjóra fyrir leiknar myndir í fullri lengd. Árið 2012 hlutu karlar 80% framleiðslustyrkja og vilyrða og konur 20%, árið 2013 hlutu karlar 86% og konur 14%, árið 2014 hlutu karlar 67% og konur 33% og til þessa árið 2015 er hlutfallið jafnt, karlar með 50% og konur með 50%.

Kvikmyndasjóður styrkir að meðaltali 3-4 kvikmyndir í fullri lengd á ári auk nokkurra lægri styrkja t.d. vegna eftirvinnslu eða samframleiðslu. Tölfræði fyrir hvert ár varðandi úthlutanir getur því sveiflast nokkuð mikið. Á árunum 2005-2015 var árangurshlutfall leikstjóra 58% hjá báðum kynjum þegar kom að framleiðslustyrkjum fyrir leiknar myndir í fullri lengd. Frá 2012 hefur umsóknum með kvenkynsleikstjórum fjölgað og árangurshlutfall hækkað í öllum flokkum framleiðslustyrkja (er nú í 67% fyrir leiknar myndir, 86% í heimildamyndum, 78% í stuttmyndum og 100% í leiknu sjónvarpsefni).

Synjun um styrk er ekki alltaf endastöð umsækjanda. Fjárhagsstaða sjóðsins hverju sinni skiptir miklu máli og oft kjósa umsækjendur fremur framhaldsstyrki til að þróa verkefni sín betur áður en kemur að endanlegri umsókn um framleiðslustyrk. Algengt er að þróun einstakra verkefna taki nokkur ár.

Kvikmyndasjóður

Ólíkt öðrum menningarstofnunum á menningarsviðinu stendur KMÍ ekki fyrir verkefnum. Kvikmyndasjóður er samkeppnissjóður sem svarar umsóknum sem berast frá listamönnum og/eða framleiðendum sem síðan standa alfarið að framkvæmd og fjármögnun umfram það sem nemur styrk úr Kvikmyndasjóði sem er oft um eða innan við 50% af heildarkostnaði. Gerjun hugmynda og sköpunarkraftur fagmanna ráða för við þróun kvikmynda.

KMÍ er ætlað að styrkja þá sem hafa kvikmyndagerð að atvinnu og þurfa umsækjendur um framleiðslustyrki að sýna fram á reynslu og staðgóða þekkingu á kvikmyndagerð. Sjóðurinn getur aðeins styrkt hluta þeirra umsókna sem berast. Mörgum er því miður hafnað, sjaldnast vegna þess að verkefnið er talið lélegt heldur fremur vegna þess að forgangsröðun byggir m.a. á samanburði við önnur verkefni sem liggja fyrir hjá sjóðnum hverju sinni.

Um úthlutanir er farið eftir reglugerð um Kvikmyndasjóð sem er gefin út af mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Að auki er unnið eftir samkomulagi félaga kvikmyndagerðarmanna við stjórnvöld þar sem hnykkt er á framkvæmd og helstu áherslum. Sem stendur vinnur kvikmyndaráð að nýju samkomulagi og endurskoðun kvikmyndalaga og mun leggja tillögur um nýjar áherslur fyrir mennta- og menningarmálaráðherra á næstunni.

Leiðir til úrbóta

Það hefur verið ljóst um nokkurt skeið að mun færri umsóknir berast KMÍ um styrki þar sem konur skipa lykilstöðurnar í handritagerð, leikstjórn eða framleiðslu. Sem viðbrögð við því var m.a. samþykkt þingsályktun árið 2010 þar sem mennta- og menningarmálaráðuneytinu var falið á árunum 2011–2014 að kanna „ hvers vegna konur sækja síður en karlar um styrki úr kvikmyndasjóði. Fundin verði leið til þess að hvetja konur reglulega til að sækja um styrki fyrir eigið efni til handritsgerðar og framleiðslu kvikmynda, heimildarmynda og sjónvarpsþátta. Leitað verði leiða til þess að viðfangsefni með kvenlægum gildum njóti viðurkenningar til jafns við karllæg viðmið í mati á umsóknum. Markmiðið verði að fá fleiri myndir og þætti unna út frá kvenlægum sjónarhornum. Fundin verði leið til að hvetja skólastúlkur frá unga aldri til að skapa og miðla sínu sjónarhorni með kvikmyndasköpun ekki síður en pilta. Grunn- og framhaldsskólar verði hvattir til að standa fyrir átaksverkefnum í stuttmyndagerð stúlkna.

Í kjölfarið var efnt til átaks í stuttmyndagerð fyrir konur í umsjón WIFT, kvenna í kvikmyndagerð, og þessar vikurnar stendur félagið fyrir öðru námskeiði ætlað ungum konum. Þetta eru jákvæð teikn og vonandi verður þráðurinn tekinn upp aftur í samræmi við þingsályktunina.

Vandinn við að fá fleiri umsóknir frá konum er fjölþættari en svo að KMÍ geti verið meira en hvetjandi aðili og virkur sem slíkur. Innviðir hér á landi eru talsvert fábrotnari en hjá nágrannaþjóðum. Almennt nám í myndlæsi er lítið sem ekkert í grunn- og framhaldsskólum, fáir fagmenntaðir kennarar og lítið til af námsgögnum. Í flestum löndum sem við lítum til er að finna vinnusmiðjur fyrir börn, unglinga og aðra áhugasama sem vilja spreyta sig undir leiðsögn fagaðila. Að Kvikmyndaskóla Íslands frátöldum er formlegt nám í kvikmyndagerð lítið og aðeins í boði í örfáum framhaldsskólum.

Til að bæta stöðuna verða allir að leggjast á eitt, KMÍ, skólar, stjórnvöld og fagfólkið.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR