Íslenskar kvikmyndir í fókus á Nordisk Panorama

nordisk panorama 2015

Nordisk Panorama hátíðin hefst í Malmö á föstudag. Hátíðin safnar saman bestu stutt- og heimildamyndum ársins til þátttöku í keppni um bestu norrænu stuttmyndina og bestu norrænu heimildamyndina auk þess sem ýmislegt annað er á dagskrá. Sex íslenskar myndir taka þátt í keppninni og að þessi sinni er einnig sérstakur fókus á íslenska kvikmyndagerð.

Þú og ég eftir Ásu Hjörleifsdóttur og The Pride of Strathmoor eftir Einar Baldvin taka þátt í keppni um bestu norrænu stuttmyndina.

I Want To Be Weird eftir Brynju Dögg Friðriksdóttur um listakonuna Kitty Von Sometime og list hennar og Hvað er svona merkilegt við það eftir Höllu Kristínu Einarsdóttur (vann áhorfendaverðlaun heimildamyndahátíðarinnar Skjaldborgar nú í vor) taka þátt í heimildamyndahlutanum.

Þá taka Zelos eftir Thorannu Sigurdardottur, og Tvíliðaleikur eftir Nönnu Kristínu Magnúsdóttur þátt í flokknum New Nordic Voices.

Nordisk Panorama hefur í gegnum tíðina ferðast um Norðurlöndin en héðan í frá verður hátíðin staðsett í Malmö og sérstakur fókus verður á eitt Norðurlandanna hverju sinni. Í ár er það Ísland sem er undir smásjánni.

Margt af því besta sem við höfum gert á stutt- og heimildamyndasviðinu verður dregið fram af þessu tilefni. Myndirnar sem sýndar verða eru:

Kjötborg eftir Helgu Rakel Rafnsdóttur og Huldu Rós Guðnadóttur, Hreint hjarta eftir Grím Hákonarsson, Amma LoFi eftir Orri Jónsson, Kristínu Björk Kristjánsdóttur og Ingibjörgu Birgisdóttur, Íslensk alþýða eftir Þórunni Hafstað, Megaphone eftir Elsu Maríu Jakobsdóttur, Sonnet of Delirium eftir m.a. Unu Lorentzen, Skröltormar eftir Hafstein Gunnar Sigurðsson, Síðasti bærinn eftir Rúnar Rúnarsson og Skaði eftir Börk Sigþórsson.

Jóhann Jóhannsson verður með Masterclass og verður fyrsta verk Jóhanns sem leikstjóra, End of summer, sýnt í tilefni af því. Danska heimildamyndin Good Things Await verður einnig sýnd en Jóhann samdi tónlist við myndina.

Leikstjórinn Ísold Uggadóttir er annar gestur My Dinner With viðburðarins. Þar er tveimur kvikmyndagerðamönnum spyrt saman  fyrir framan áhorfendur til skrafs og pælinga um vinnuna, ferilinn og hvatan á bak við sína kvikmyndagerð. Stuttmyndir Ísoldar, Góðir gestir, Njálsgata, Clean og Útrás Reykjavik, verða sýndar í tengslum við þennan viðburð.

Biophilia verður með námskeið fyrir krakka og verða myndirnar Biophilia Live og When Björk Met Attenborough sýndar, einnig verður listamannaspjall við listakonuna Kitty Von Sometime. Íslensk vídeóverk, prógrammeruð af Kristínu Scheving verða sýnd í listasafni Malmö, Malmö Konsthall og að sjálfsögðu verður almennilegt íslenskt partí!

 

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR