Í kjölfar umræðna um hlut kvenna í kvikmyndagerð á Íslandi hefur Kvikmyndamiðstöð Íslands tekið saman upplýsingar fyrir árin 2013 og 2014 um fjölda umsókna í Kvikmyndasjóð Íslands og styrkja/vilyrða úr sjóðnum eftir kyni. Í ljós kemur að hlutfall kvenna sem fá styrki er mun hærra en karla. Karlar fá þó fleiri styrki í heild, en karlkyns umsækjendur eru mun fleiri.
Í flokkun umsókna eftir kyni var stuðst við kyn handritshöfunda og leikstjóra.
Taflan sýnir fjölda umsókna og veittra styrkja bæði fyrir handrits- og framleiðslustyrki, skipt upp eftir kynjum, ásamt úthlutunarhlutfalli. Um er að ræða handrits- og framleiðslustyrki fyrir allar tegundir mynda, þ.e. leiknar kvikmyndir í fullri lengd, leikið sjónvarpsefni, heimildamyndir og stuttmyndir.
Árangur í umsóknum síðustu 2 ár eftir kyni | |||
Umsóknir | Úthlutanir | Úthlutunar% | |
Handritsstyrkir 2013 og 2014 – handritshöfundar | |||
KK | 151 | 88 | 58% |
KvK | 57 | 37 | 65% |
Teymi KK og KvK | 17 | 13 | 76% |
225 | 138 | 61% | |
Framleiðslustyrkir og vilyrði afgreidd 2013 og 2014 – leikstjórar | |||
KK | 98 | 56 | 57% |
KvK | 24 | 18 | 75% |
Teymi KK og KvK | 5 | 5 | 100% |
127 | 79 | 62% | |
Samtals KK | 249 | 144 | 58% |
Samtals KvK | 81 | 55 | 68% |
Samtals teymi KK og KvK | 22 | 18 | 82% |
Taflan sýnir að í tilviki handritsstyrkja eiga karlar 151 umsókn og fá styrk í 58% tilvika. Sambærilegar tölur fyrir konur eru 57 umsóknir og árangur í 65% tilvika.
Í tilviki framleiðslustyrkja eiga karlar 98 umsóknir og fá styrk í 57% tilvika. Konur eiga 24 umsóknir, fá úthlutað í 18 tilvikum sem þýðir 75% úthlutunarhlutfall.
Í heildina ná konur 68% úthlutunarhlutfalli en karlar 58%.
Karlar eiga 249 umsóknir eða 71%, en fá um 66% veittra styrkja. Sambærilegar tölur fyrir konur eru að þær eiga 23% umsókna en fá 25% úthlutana.
Tekið er fram að þróunarstyrkir eru ekki taldir með í þessari samantekt. Ástæðan er sú að í tilfelli þróunarstyrkja er yfirleitt um sömu verkefni að ræða og í umsóknum um framleiðslustyrki. Umsóknir um þróunarstyrki voru 18 á tímabilinu og ættu ekki að skekkja þær niðurstöður sem taflan sýnir.