Skjaldborgar-dagbók, föstudagur: Hinn árlegi heiti pottur

Gestir í Skjaldborgarbíói. Ásgeir H. Ingólfsson í hvítum bol til vinstri.
Gestir í Skjaldborgarbíói. Ásgeir H. Ingólfsson í hvítum bol til vinstri.

Heimildamyndahátíðin Skjaldborg var haldin á Patreksfirði núna um páskana í níunda skipti. Og eftir þennan tæpa áratug er maður farinn að sjá að það eru ansi fjölbreytilegar ástæður sem fólk hefur fyrir að heimsækja þessa frábæru hátíð.

Sumir hafa komið áður og vita að það er alltaf gaman. Það var meira að segja líka gaman þetta eina ár þar sem bíómyndirnar sjálfar ollu vonbrigðum. Þetta eru Skjaldborgarfíklarnir.

Sumir koma bara til að sjá bíó – og fatta svo seinna hvað það er gaman að eiga endalaus samtöl við fólk í bjartri sumarnótt á hjara veraldar.

Aðrir koma til að djamma og fatta hvað það er gaman að fara í bíó ósofinn og þunnur.

Sumir eru í ævintýraleit og sumir eru svo heppnir að villast bara á Patró og fatta að þeir rötuðu á réttan stað.

veisla skjaldborg 2015
Veisla á Patró – Skjaldborg 2015.

Þetta á örugglega allt við um sjálfan mig. Þetta var fimmta hátíðin mín – en leiðin til Patró hefur aldrei verið jafn löng. Ég er nefnilega orðinn útlendingur og skrifaði síðasta haust langan pistil hérna um að mér þætti undurvænt um Ísland en ég væri einfaldlega búinn að gefast upp á allri spillingunni og fábreyttu atvinnulífinu og síbyljunni. Ég veit alveg að framtíðin er í útlöndum á meðan það er verið að rífa Ísland niður – en þegar ég skilaði síðasta verkefni vorannarinnar í bresku mastersnámi og íhugaði hvað ég ætti að gera næst var svarið ósköp einfalt; vegna þess að þótt suðurströnd Englands sé ágætis pleis þá eru engar bjartar sumarnætur þar, hvað þá íslenskar heimildamyndir.

Þannig að ég keypti flugmiða og var mættur 40 klukkustundum síðar í Reykjavík að bíða eftir farinu mínu á Skjaldborg. Og næstu hundrað klukkutíma var Ísland í alvörunni aftur besta land í heimi og maður steingleymdi allri spillingunni og meðvirkninni og áburðarverksmiðjunni og vetrarkuldunum. Sem er stórhættulegt – ef ég hefði verið mikið lengur fyrir vestan hefði ég jafnvel freistast til að flytja aftur heim. En það ræður enginn blaðamenn í áburðarverksmiðjuna.

Skjaldborg er eins og Hollywood-bíómynd að því leytinu til að það er bæði kitla og stikla (e. teaser & trailer) sem fylgja hátíðinni. Kitlan er bílferðin frá Reykjavík þar sem fimm einstaklingar sem stundum þekkjast og stundum ekki byrja að gíra sig upp fyrir hátíð. Stiklan er svo ferjan Baldur – þar sem maður hittir alls konar skemmtilegt fólk sem maður var kannski ekki búinn að hitta síðan á síðustu Skjaldborg.

Stund milli stríða á Skjaldborg 2015.
Stund milli stríða á Skjaldborg 2015.

Og svo ég þjófstarti aðeins sunnudagspistlinum þá sá ég þar brot úr Heita pottinum – sem var kynnt sem verk í vinnslu – og þar talaði leikstýran Harpa Fönn um að aðalpersónur myndarinnar hittust í heita pottinum á hverjum morgni – en hittust aldrei þess á milli.

Og þótt það rati iðullega einhverjir góðkunningjar úr Reykjavík á Skjaldborg þá er ég samt að hitta flesta þarna einu sinni á ári. Þetta er okkar árlegi heiti pottur – heimur þar sem fólk gleymir internetinu, brauðstritinu og umheiminum yfir eina langa helgi og horfir á margfalda ráðlagða dagskammta af heimildarmyndum – sem virkar auðvitað eins og besta spínat á heilastöðvarnar.

Ríkisbubbaörorka

Það er hins vegar langt til Patreksfjarðar úr höfuðborginni og þess vegna er bara ein mynd fyrsta daginn – um kvöldið þegar flestir eru loksins komnir vestur. Þetta árið var opnunarmyndin Ljúfa lífið (The Good Life) – eftir heiðursgesti hátíðarinnar, dönsku leikstýruna Evu Mulvad og framleiðanda hennar, Sigrid Dyekjær. Þetta ljúfa líf virðist þó aðeins vera fortíðardraumur tveggja danskra mæðgna sem fæddust báðar inní ríkidæmi og hafa aldrei þurft að vinna ærlegt handtak um ævina. En jafnvel feitustu bankareikningar tæmast að lokum þegar það koma aldrei nýjar millifærslur inná þá og efnahagslegir jarðskjálftar ríða yfir með nokkurra áratuga fresti.

Úr Hinu ljúfa lífi.
Úr Hinu ljúfa lífi.

Mæðgurnar sem við kynnumst eru því með minningar um ríkidæmi í farangrinum – en staurblankar í núinu, móðirin um áttrætt og dóttirinn rúmlega fimmtug – með galtóma ferilsskrá og andlega ófær um að vinna sökum ríkisbubbaörorku.

Ég gæti alveg reynt að segja ykkur hvað mér fannst um myndina – en í staðinn ætla ég að segja ykkur hvað sessunautum mínum fannst um myndina.

Sá fyrsti lýsti því yfir eftir lok myndar að hann hafi verið að bíða eftir því allan tímann að þær myndu drepast – það hefði verið hans Hollywood-endir. Það voru þó ekki hnjóðsyrði um myndina – heldur í hans huga staðfesting á því að leikstýrunni hefði tekist að finna tvær manneskjur sem í sjálfskaparvíti sínu krystalla allt það sem er að í okkar kapítalista heimi, þar sem eitt prósent heimsins hefur unnið milljarða í lottóinu og sannfærist um að það sé ekki óréttlát tilviljun heldur guðdómlegt réttlæti, þau eigi þetta einfaldlega skilið þótt þau hafi ekkert til þess unnið.

Annar sessunautur minn velti hins vegar fyrir sér hvort þarna væri ekki gengið of nærri aðalpersónunum – er í lagi að sýna jafn mikla og aumkunnarverða eymd í nafni listarinnar, jafnvel þótt mæðgurnar hafi veitt samþykki sitt? Þannig spannaði upplifun gesta allan skalann – sumir hötuðu þær mæðgur á meðan aðrir fundu til samkenndar með þeim, jafnvel gegn betri vitund. Svo hefur sjálfsagt einhver góðviljaður kvótakóngur villst í bíó og farið beina leið heim til að stofna styrktarsjóð fyrir fyrrverandi auðkýfinga.

En þótt ójöfnuðurinn sé víða þá eru allir jafnir á Skjaldborg og kvöldið breyttist í sumarnótt á meðan maður átti rólyndisspjall á Heimsenda (ég er ekki að reyna að vera skáldlegur hérna – kaffihúsið heitir þetta), enda lærir maður af reynslunni að það er best að byrja rólega og taka ekki dansskóna fram fyrr en á laugardag, enda helgin löng og nauðsynlegt að halda út allan tímann, enda alvöru bíógláp erfiðisvinna.

Ásgeir H. Ingólfsson
Ásgeir H. Ingólfsson
Ásgeir H. Ingólfsson er blaðamaður og gagnrýnandi.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR