Það er tekið að kvölda á Patreksfirði og lokakvöld Skjaldborgar nær brátt hámarki – hámarkið er vitaskuld þegar verðlaunastyttan Einar mætir á svæðið. Fyrir þremur árum var Einar þessi nákominn Grími Hákonarsyni – sem vann Einarinn árið 2012 fyrir myndina Hreint hjarta.
Núna, þremur árum síðar, er Grímur þrjúþúsund kílómetra fyrir sunnan Patreksfjörð að vinna einhver stæstu verðlaun sem íslenskur kvikmyndagerðarmaður hefur unnið til þessa. Sem er auðvitað bara staðfesting á því að herra Einar hvetur menn svo sannarlega til góðra verka – og hver veit nema sigurvegari kvöldsins endi líka á frönsku rívíerunni eftir fáein ár.
En hverjir eru líklegastir til að landa Einarnum? Latínubóndinn, um tónlistarflakk Tómasar R. Einarssonar til Havana? Eða kannski Biðin, þar sem sem aldraðir stórleikarar takast á við Godot og leikritið þar sem ekkert gerist – tvisvar? Eða verður Halla Kristín fyrsti leikstjórinn til að vinna Einarinn aftur? Hún er mætt hingað með Hvað er svona merkilegt við það – framhald Konur á rauðum sokkum, sem vann einmitt Einarinn fyrir nokkrum árum. Ef tekið er mið af troðfullum sal og því að Halla var klöppuð upp á svið í lokin kæmi það ekki á óvart.
Svo er aldrei að vita hvernig Findið, uppistandsmynd Ragnars Hanssonar og Hugleiks Dagssonar, legst í mannskapinn – en þessi lokamynd hátíðarinnar verður frumsýnd nú rétt á eftir.
Þetta kemur allt saman í ljós stuttu fyrir miðnætti í kvöld – og á næstu dögum mun Klapptré færa ykkur Skjaldborg í hægri endursýningu, þar sem þessari þriggja daga bíóveislu verða gerð ítarleg skil.